27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3510)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég get verið ánægður með undirtektir hv. 1. þm. Eyf. undir þessa till., er ég hef flutt, bæði til að hreinsa hann og aðra af núverandi skipulagsleysi. Það virtist gæta nokkurs misskilnings hjá þessum hv. þm. varðandi það, er ég las úr blaði því, sem honum er nú tengdara en mér, ásakanir í garð forsetanna. Ég las þetta aðeins eins og það stóð í blaðinu, en gerði það alls ekki að mínum orðum, sagði aðeins, að þessi ummæli blaðsins væru þannig löguð, að þau köstuðu rýrð á forseta þingsins, en það var ekkert í minni ræðu, sem gaf tilefni til þess að spyrja mig, hvort ég gæti fundið stað þeim orðum, að einhverjir einstakir forsetar hefðu misnotað sérréttindi sín. Það er raunar aukaatriði, hvort bar er settur hér upp eða ekki. Það væri bara ómerkileg formsbreyting, því að alþm. hafa rétt á því að fá vín með niðursettu verði, og ættum við þá nokkuð að hika við að hagnýta okkur þessi réttindi? Mér sýnist, að það, að ég tók dæmið um samtal forsetanna um barinn, sé aðeins rökrétt afleiðing þess ástands, sem nú er, að alþm. hafa rétt á ódýru víni og geta ráðstafað því eftir vild.

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að aðeins eitt veitingahús hefði vínveitingaleyfi, þá hélt ég, að hann vissi, að öðru hverju er veitt vín víðar en á Hótel Borg og það með einhverju leyfi, og ég hygg, að hv. 1. þm. Eyf. sjái, að úr því að alþm. hafa leyfi til að fá ódýrt vín, þá muni það ekki vera í vandræðum með að hagnýta sér þessi réttindi. Ég get ekki skilið, hvers vegna sumir alþm. komast í svo vont skap út af þessari litlu þáltill.

Nú kom forseti Ed. að því í sinni ræðu, að þetta, sem hér um ræðir, væri í fullum blóma í Ameríku. Mér finnst því ástæðulaust fyrir þm. að vera með neinn ofsa út af þessu, en þetta með „barinn“, sem komst til tals hjá forsetunum, er ekki nema lítilfjörlegt áframhald frá því sem nú er. Ef við athugum þetta með ráðherraheimildina, þá eru engar hömlur á því, nema ráðh. mega ekki selja það vín, sem þeir fá. Hins vegar geta þeir ráðstafað því á allan annan hátt. Af þessu leiðir, að ungur maður, sem sezt í ráðherrastól, getur birgt sig upp af víni. Það er tiltölulega lítil upphæð, sem í því liggur, þegar hann fær það fyrir innkaupsverð. Þessi ráðh. getur fyllt kjallarann sinn af víni, því að vínið batnar við geymsluna og verður verðmætara. Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta, og því sé ég enga ástæðu til, að þm. séu í illu skapi út af þeirri till., sem hér liggur fyrir.