27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3513)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. furðar sig á því, að hér skuli hafa verið vikið að því, sem hann sjálfur gerir að umtalsefni í grg. fyrir þeirri till., sem hér er til umr., en það er eins og hann orðar það: „Er nú á almanna vitorði, að til mála hefur komið að setja upp „bar“ eða snapsaútsölu í þinghúsinu, og er ekki gott að segja, nema sú „hugsjón“ hefði orðið að veruleika, ef forseti Sþ. hefði ekki beitt sér á móti þessari nýjung“. Þessi orð sýna, að þó þm. sjái nú þýðingarlaust að bera slíkt fram, þá var tilgangurinn sá, að vekja tortryggni og láta fólk halda, að snapsaútsala í þinghúsinu hafi verið því sem næst ákveðin, þar til hin frelsandi hönd forseta Sþ. hefði hindrað það. Ég benti á það í minni fyrri ræðu, að til slíkrar útsölu mundi þurfa lagabreytingu, en það vildi þm. draga í efa, þó mun það nú þannig vera. Varðandi rétt stjórnarráðsins til áfengiskaupa með innkaupsverði vildi flm. þeirrar till., sem hér er til umr., læða inn þeim skilningi, að hver starfsmaður í ráðuneytinu hefði þennan rétt. Ég hygg, að ég fari með rétt mál, að þessi réttur sé ekki til nema fyrir stofnanirnar sjálfar. Alþ. hefur þessi réttindi sem stofnun, og stjórnarráðið hefur þessi réttindi sem stofnun. Og í raun og veru skipta þessi réttindi ekki miklu máli fyrir þessar stofnanir, því að t. d. Alþ. notar ekki vín, nema þegar haldnar eru þingveizlur, og það mun vera gömul venja, að kostnaður við þingveizlur sé greiddur af almannafé. Það er því aðeins bókfærsluatriði, hvort þetta vín er reiknað á innkaupsverði eða útsöluverði. Þetta er í sjálfu sér alveg hliðstætt með forsetann. Hann fær vínið með innkaupsverði sem stofnun, og ríkið greiðir kostnaðinn við þessa stofnun, og þar af leiðandi er aðeins um bókfærsluatriði að ræða í þessu tilfelli. Að öðru leyti þarf ég ekki að ræða mikið um ræðu flm., því að hann virtist ekki gera tilraun til þess að hrekja það, sem ég hef áður sagt. Það var aðeins eitt atriði, sem hann nefndi út af þessum bar. Hann sagði, að ég vissi ekki, að það væru fleiri hótel en Borgin, sem seldu vín, og það væri ekki meira, þó að settur yrði bar á Alþ., heldur en láta þessi hótel selja vín. Þegar þessi hótel selja vín, þá er það samkvæmt landsins l. Það mátti ekki leyfa nema einu hóteli að hafa vínsölu. Að öðru leyti hafði áfengisverzlunin einkasölu á víni. En það má veita öðrum veitingahúsum undanþágu. Ef veizla er í tilteknu hóteli, þá má veita hótelinu með sérstöku bréfi rétt til að selja vín þetta kvöld, en það gildir ekki nema kvöldið. Þannig mun nú þetta vera. Þetta mun nú vera nýjung, sem kom með l. 1934, en var ekki í l. 1828. Þá átti eitt hótel alveg að hafa einkaréttindi í þessu efni. Það mætti þó veita Alþ. undanþágu til þess að hafa hérna staupasölu, en sérstakt leyfi þyrfti fyrir hvern dag, og væri það þá eina staupasalan, sem um gæti verið að ræða. (JJ: Forseti getur sjálfsagt fengið leyfi fyrir þessu.) Forseti getur ekki leyft það, og ég tel það ólíklegt, að stjórnin mundi leyfa það. Nú hefur a. m. k. ekki verið sótt um slíkt leyfi, svo að ég viti til, á þessu þingi. Annars hafa einu sinni verið vínveitingar hér í þinghúsinu. Það var ríkisstj., sem þar hélt veizlu eða miðdegisboð 1. des. 1943. Um annað veit ég ekki í því efni. Ég held, að ef halda þarf þingveizlu hér, þá sé hægt að fá leyfi hjá lögreglustjóra. Það er allt annað en að setja upp staupasölu eða bar. Það er þess vegna alveg víst, sem ég segi, að til þess að þetta mætti verða, sem flm. segir í grg., að sé alveg að koma, þá þyrfti að breyta l. til að koma þessu í kring. Forsetar geta flutt frv. um það, en það stendur nú svo á, að ekki geta allir forsetar verið saman um að flytja frv., af því að þeir eiga sæti í tveimur d. Við skulum nú segja, að ég eða forseti Nd. flytti frv. um þetta, að það skyldi vera bar á Alþ., ja, þá sé ég ekki annað en að Alþ. hafi æði mörg ráð til að fella þetta, því að þetta kostar a. m. k. 6 umr., ef það á fram að ganga, og svo atkvgr.