28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Nú kom það berlega fram, sem hv. þm. S-Þ. var að dylgja um í gær í ræðu sinni, að ég hefði verið undir áhrifum áfengis, þegar ég talaði hér í gær. Hérna er, eins og oftar, um ósannindi að ræða, því að áfengi hafði ég ekki bragðað. — Hitt atriðið, þar sem hann talaði um siðlausa framkomu mína, fara þau orð hans ekki vel í munni mesta siðleysingja, sem uppi hefur verið í ræðu og riti á þessum mannsaldri.

Hv. þm. var ekki að minnast á það í ræðu sinni, að hann hefur sjálfur látið borga af opinberu fé bílreikninga í eigin þágu, sem í rauninni átti að vera í þágu menntamálaráðs, og að einnig hann hefur haldið vínveitingaveizlur á Hótel Borg. En hvernig var það hjá formanni menntamálaráðs, sem var á undan hv. þm. S-Þ.? Þá datt okkur sannarlega aldrei í hug að bregða okkur á Hótel Borg, drekka dýrt vín og láta ríkissjóð borga. Þetta er það, sem hv. þm. S-Þ. gerði. Þetta er maðurinn, sem gerir sig breiðan út af ímynduðum klækjum annarra. Við ræddum um það í menntamálaráði, hvort hann greiddi þetta sjálfur úr eigin vasa. Við töldum jafnvel líklegast, að svo hlyti að vera. En það kom fljótt í ljós, að svo var ekki.

Þm. ætlaði að afsaka kostnaðinn með því, að sjálfsagt væri, að bílarnir væru borgaðir af opinberu fé, þar sem þeir væru notaðir í embættiserindum. Ég man eftir einni för, sem ég vil gjarnan minnast á. Það var hérna um veturinn, þegar þm. S-Þ. var formaður menntamálaráðs, að hann hringdi í mig einn daginn og spurði, hvort ég vildi fara í bílferð austur fyrir fjall, því að hann vildi skoða málverk hjá góðvini sínum austur við Ölfusá. Ég tók þessu boði hans. Einnig hafði hann boðið Árna Pálssyni, sem sæti átti í menntamálaráði. Síðan var haldið af stað og staðið við um stund hjá góðvininum á Ölfusá og drukkið þar nokkuð af víni, og síðan var haldið heimleiðis. Sá ekki verulega vín á þm. S-Þ., og hafði hann þó drukkið talsvert. Var þetta í nóvembermánuði, um tólfleytið að kvöldi. Þegar komið var á Hellisheiði á heimleiðinni, fór þm. S-Þ. að tala um viðskipti sín við skáldin, hafði þá nýlega skrifað greinina um skáldin sex og spurði, hvernig mér líkaði. Ég lagði ekkert til málanna, talaði alls ekkert, fyrr en þm. S-Þ. snýr sér við æstur og spyr mig: „Hvernig líkar þér greinin, Barði?“ Þá varð mér á að segja: „Ég les ekki Tímann.“ Og hvað haldið þið, að þessi hv. þm. hafi þá tekið til bragðs? Hann sneri sér við í sætinu og hvæsti framan í mig, froðan stóð úr munni hans, skammarunan skall á mér með tilheyrandi hótunum. Svo endaði hann þessa glæsilegu framkomu á þann hátt að skipa bílstjóranum að stöðva bílinn og fleygja mér út. Það væri gaman að fá upplýst frá hv. þm. S-Þ., hver hefur borgað þennan bíl, sem var látinn hanga við Ölfusárbrú heilan dag til þess að bíða eftir mönnum í vínveizlu. Þessu hefur hann stjórnað.

En ég tel líka rétt að upplýsa á Alþingi, hvernig á þeim fjandskap stendur, sem þm. S-Þ. hefur stöðugt lagt á mig. Það er vert að geta þess, að ég hef ekki gert neitt á hluta þess þm. Þvert á móti hef ég hindrað hann í því að vinna ýmis ógæfuverk í sambandi við úthlutun styrkja, þegar hann átti sæti með mér í menntamálaráði. En einmitt fyrir það, að mér tókst að koma í veg fyrir, að hann gæti framkvæmt ýmis óhappastrik þar, einmitt fyrir það leggur hann á mig fæð, en hefði mátt vera mér þakklátur. — Það var furðuleg hlutdrægni, sem þessi maður reyndi að sýna og koma fram í einstökum tilfellum. Þegar mikil sæmdarkona, Aðalbjörg Sigurðardóttir, sótti um frítt far til útlanda á 2. farrými, þá ætlaði þessi þm., þegar hann sá þessa umsókn, að verða æfur. Við samþykktum vitanlega að veita henni þetta, því að okkur fannst það sjálfsagt.

Þá var það einnig annar maður, sem hv. þm. S-Þ. var alltaf á eftir, einn af listamönnum okkar, Ásmundur Sveinsson, sérstaklega stilltur maður og prúður, sem gengur eingöngu upp í list sinni, og Alþ. hefur tekið hann upp, en formaður ráðsins reyndi að bola þessum manni frá, þegar hann kom í ráðið.

Ég gæti talið upp fjölda af dæmum, þar sem engum rökum var beitt, en aðeins illgirni ein réð. Og ég hef séð þennan mann, sem nú talar mikið um siðleysi hér, blána þar í framan á fundum, hvæsa þar og brúka ókvæðisorð.