28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3521)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Barði Guðmundsson:

Það stendur orð á móti orði í frásögn okkar hv. þm. S-Þ., og ég efast ekkert um það, hvernig þeir menn, sem þekkja okkur báða, líta á sannleiksgildi frásagnar hvors um sig, þar sem ekki ber saman, og skal ég svo ekki eyða orðum að því.

Ég vil aðeins segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem hv. þm. S-Þ. talaði um orðbragð mitt í gær. Það hefði kannske mátt segja það á viðfelldnari hátt fyrir hann, hversu aumleg framkoma hans hefur verið. En ég kann ekki við að vera að skera utan af því, sem ég hef að segja. Ég sagði, að hann væri lygari. Það er sannnefni. Ósannindamaður passar ekki, því að í því liggur ekki annað en að rangt sé farið með — það geta eins verið óviljandi ósannindi. En lygar eru það að fara með vísvitandi ósannindi, og margir vita, að þetta gerir hv. þm. S-Þ. iðulega. Ég endurtek það, að ég hef aldrei þekkt nokkurn mann, sem er háður annarri eins ósannindahneigð til mannskemmda og þessi hv. þm. En þetta er ekkert nýtt, þjóðin hefur vitað það fyrir löngu, hvernig hann er, svo að ekki þarf að fara mörgum orðum um það. En mig langar til að lesa upp úr alþingistíðindunum rökst. dagskrártillögu, sem samþ. var í Ed. 1926 með 2/3 hlutum atkv. í sambandi við þáltill., sem þm. S-Þ. hafði borið fram viðvíkjandi því að fá málsókn í þingi á hendur mætum manni, sem nú er dáinn fyrir mörgum árum og kallað hafði þennan þm. (JJ) ærulausan rógbera og lygara. Rökst. dagskráin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,.Með því að ríkisstj. getur ekki skipað embættismönnum að fara í meiðyrðamál og með því að flm. till. þessarar hefur í opinberu, víðlesnu blaði verið lýstur ærulaus lygari og rógberi af hinum sama manni, sem hann nú vill láta lögsækja, án þess að hafa, svo vitanlegt sé, gert ráðstafanir til að hreinsa sig af þeim áburði, verður deildin að líta svo á, að henni sé með till. þessari lítilsvirðing sýnd af flm. hennar. Hún sér því ekki ástæðu til að sinna till. að neinu leyti og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi dagskrártill. var samþ. með 2/3 atkv. í deildinni. Þetta er ekkert nýmæli, hv. þm. S-Þ. Þetta er svo alkunnugt, að segja má, að óþarfi sé að vera að rifja þetta upp.