28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3527)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég mun ekki blanda mér inn í þessar umr., en get tekið undir það, að þær hafa verið þinginu til lítils sóma, og er líklegt, að margt af því, sem sagt hefur verið af hv. þm. sjálfum um áfengismálin, kunni að leiða til þess, að menn, sem hér eru ókunnugir og hlusta á umr., haldi, að Alþ. væri samkvæmi drykkjuræfla og vesalinga og að það væri alveg víst, að þeir, sem til mikils trúnaðar eru kjörnir af þm., væru vísir til að misnota öll hlunnindi, sem þeim yrðu veitt. Þetta kom ekki sízt fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem gerði ráð fyrir því, að það eitt, að mönnum væru veitt viss hlunnindi, hlyti að leiða til misnotkunar þeirra. Nú er það svo með alla þá menn, sem eru valdir til mikils trúnaðar, að það verður að fela þeim meiri völd en almennt gerist á ýmsum sviðum, og þegar gengið er út frá því sem gefnu, að ef þessi heimild sé fyrir hendi, sé hún misnotuð, þá er þar verið að kveða upp þungan áfellisdóm á siðferðisástand fulltrúa þjóðarinnar — dóm, sem ég vil mótmæla, að hafi við nokkur rök að styðjast. Vandlæti þm. á að koma fram í því að kjósa ekki aðra til trúnaðarstarfa, hvort heldur er til forseta eða í aðrar stöður, sem sérréttindi fylgja, heldur en þá, sem treysta má, að ekki misnoti þau. Það hefur að vísu komið fyrir í einstaka tilfellum, að slík hlunnindi hafi verið misnotuð, en það á að leiða til þess, að slíkum mönnum á ekki að fela trúnað áfram, en ekki til þess, að slíkur málflutningur sé upp tekinn eins og hér hefur verið gert, þar sem gert er ráð fyrir því, að allir æðstu trúnaðarmenn þings og þjóðar séu siðferðissnauðir vesalingar. Það, sem hér er um að ræða og menn tala sumpart um eins og ókunnuga hluti, er það, að ríkisvaldið hafi — því miður má segja — komizt inn á þá braut, að vísu ekki nýlega, heldur fyrir mörgum áratugum, að vissir æðstu embættismenn ríkisins eru verr launaðir en ástæða væri til. Ástandið í þjóðfélaginu er nú þannig, að ráðherrar eru helmingi verr launaðir en kyndari um borð í togara eða loftskeytamaður. Þetta hefur leitt til þess, að með vitund og vilja þm. — þori ég að fullyrða — hafa ráðh. um margra áratuga skeið notið vissra hlunninda til þess að bæta þetta upp lítillega, sem eru miðuð við, að ætla má, að þeir þurfi að bera meiri kostnað í sambandi við framkvæmd embættis síns en aðrir. Það er vitað mál, að á ráðherraembætti hvílir bein skylda að halda uppi risnu og allmeiri en gerist um embættislausa menn, og hefur ríkið ekki séð sér fært að bæta þetta upp með hærri launum. Nú verður að ganga út frá því, að hver ráðh. hafi það nokkuð eftir sinni venju, sem er kunn, áður en honum er falið embættið, hvort hann neytir víns eða ekki, en vegna þess að ríkið fær sjálft mikinn hagnað af vínsölu, er sá háttur hafður á, þar eð risnan er m. a. fólgin í því að veita vín við ýmis tækifæri, þá hafa æðstu mönnum ríkisins verið veitt þau hlunnindi að þurfa ekki að greiða ríkinu álagningu af því víni, sem ætla má, að þeir þurfi til sinnar risnu, meðan þeir gegna þessu embætti. Hér getur því ekki verið að ræða um annað en fjárhagsatriði, en kemur ekkert siðferðismálum við, og allra sízt við í þessu sambandi að vera að drótta að mönnum drykkjuskap og ganga út frá, að þeir menn hljóti að neyta sjálfir eða veita öðrum óhæfilega mikið vín, sem njóta þessara hlunninda. Ef menn kjósa í trúnaðarstöður þá aumingja, sem líklegir eru til að fara þannig að, þá er slíkt blettur á þeim þm. eða öðrum, sem velja þá menn í embættin, og bera sjálfir sökina, og eiga þm. að varast að kjósa menn til trúnaðarstarfa, sem þeir trúa til þess að misnota sína stöðu á þennan veg.

Ég held því, að það sé í raun og veru ástæðulaust, að þetta mál sé látið ganga athugasemdalaust til n., þannig að ekki sé á það bent, að hér er eingöngu um fjárhagsatriði að ræða af hálfu ríkisins um það, hvernig það vill búa að tiltölulega litlum hóp sinna æðstu trúnaðarmanna. Ástandið er þannig, að ríkið treystir sér ekki til að greiða þeim þau laun, sem talin eru hæfileg, þegar tekið er tillit til hins ýmislega embættiskostnaðar, sem embættunum eru samfara. Þar af leiðandi hefur ekki verið lagt á vissar vörur, sem talið er sennilegt, að þeir þurfi að nota, og það er sjálfsögð regla, að ætlazt er til, að þeir menn, sem veittur er trúnaður og vald umfram aðra menn í þjóðfélaginu, kunni að gæta þess. Og því aðeins eru þeir valdir til starfans, að þeir misnoti þetta ekki frekar en svo margt annað, sem undir þá er lagt, og út af fyrir sig kann ég ekki að sitja hér þegjandi undir því, að gefið sé í skyn, að ráðh. og aðrir, sem þessi hlunnindi hafa, séu gerðir að hálfgerðum glæpamönnum, Eins og hv. þm. S-Þ. (JJ) tók fram, fylgir það sumum ráðherraembættunum að hafa á hendi risnu fyrir ríkið, og þannig er því varið með mitt embætti, að það er beinlínis lagt fyrir mig að hafa á hendi slíka risnu. Mér stendur nákvæmlega á sama, hvort hún er mikil eða lítil, en ég hef bara enga peninga til þess að borga þetta úr eigin vasa fyrir ríkisins hönd, og það hefur gert þá peninga drýgri, sem mér hafa verið fengnir af ríkinu, að mér er afhent áfengi og tóbak með þessum afslætti, en ef borga ætti þetta með fullkomnu útsöluverði, yrði annaðhvort að auka risnuféð um verulega upphæð, er skipti tugum þúsunda, eða að draga að sama skapi úr risnunni. Slíkt er að vissu leyti ekki hægt, þ. e. að draga úr risnunni, vegna þess að hún er m. a. í því fólgin að taka hér við mönnum til stuttrar dvalar, auk þess sem hér verður að halda uppi risnu af hálfu ríkisins gagnvart þeim erlendu fulltrúum, sem hér dvelja, og við megum ekki gera okkur að þeim halanegrum að ætla, að við verðum minni menn, þó að veitt sé vín af ríkisins hálfu. Við lifum að sumu leyti á vínöld, þar sem meginþorri borgaranna telur það sjálfsagðan hlut að drekka vín, enda væru Íslendingar einstakt fyrirbrigði á yfirborði jarðar, ef þeir væru auvirðilegir fyrir það að smakka vín, og þeir menn mega skammast sín, sem halda því fram, að Íslendingar séu sérstakir drykkjuræflar. Ég álít það sé til skammar fyrir þm., þegar þeir sumir vitna um það daglega, að helmingur þm. séu ofdrykkjumenn og kunni ekki fótum sínum forráð í þessum efnum. Með þessu er verið að gefa þjóðinni alranga lýsingu af þeim mönnum, sem hér eru samankomnir, og við gerðir auvirðilegri í augum almennings en nokkur ástæða er til. Það er að vísu rétt, að hér er drukkið of mikið af áfengi, en hitt er til skammar, að menn séu að ráðast hver á annan eða rífa klæðin hverjir af öðrum, eins og hér hefur verið gert. Hins vegar er ég því sammála, að menn eiga að taka upp þann sið að reka þá menn af samkundum, sem gera sig seka um spjöll, og að menn eigi að forðast að tala við slíka menn, en þetta er ekkert skylt við notkun víns, því að menn geta orðið sér til skammar, þótt þeir séu ekki drukknir. — Kjarni þessa máls er sá, að þm. verða að gera það upp við sig, hverjir það eru af embættismönnum ríkisins, sem eiga að halda uppi risnu, og síðan ætla, þeim fé til þess og á annan veg en gert hefur verið, vegna þess að með því móti er nokkur falinn risnukostnaður. Dæmi þess arna kom fram í því, að út af veizlu, sem ég hélt sem borgarstjóri Reykjavíkurbæjar, var það blásið upp, að þar hefði verið óhóflegur vínreikningur, vegna þess að reikningurinn var talinn nema um 20 þúsundum króna, með álagningu. Þetta er að vísu töluvert hár reikningur, þegar hann er settur svona fram, en þegar á það er litið, að með því verði, sem ríkið greiðir fyrir áfengi á sínum samkomum, svarar þetta til 1–2 þús. króna, og er þetta þá ekki nema það, sem sambærilegt er við aðrar veizlur, sem haldnar eru. Ég minnist þess í þessu sambandi, að hér var fyrir um ári síðan efnt til veizlu af því opinbera, og höfðu menn verið með mótmæli þann sama dag um að veita ekki vín í veizlum, en svo var mér sagt, að þeir, sem bjuggust ekki við neinum vínveitingum, hefðu tekið með sér á veizlustað töluvert af víni í rassvasanum. Í veizlunni var svo veitt vín eins og venjulega, og ég hygg, að vínneyzlan hafi verið ósköp svipuð í báðum þessum veizlum, því að sannleikurinn er sá, að menn tala um þessi mál hér í þingsölunum allt öðruvísi en þegar þeir eru komnir inn í hliðarsalina, og meiri hluti manna hagar sér hér og mælir margt allt öðruvísi en í prívatlífinu. Það hlýtur öllum að ofbjóða að hlusta á þær umr., sem hér hafa átt sér stað undanfarið í sambandi við þetta mál og einnig önnur, og það er siðferðisblettur á þjóðinni, að slíkur yfirdrepsháttur skuli eiga sér stað, eins og hér hefur orðið raunin á, og því miður er það sízt til að draga úr drykkjuskapnum, vegna þess að hann verður ekki yfirunninn á annan hátt en með hófsemi og skynsamlegri framkomu af hálfu þeirra manna, sem vinna gegn honum. Ég játa það, að ástandið í áfengismálunum er svo alvarlegt, að það er ekki til að hafa í flimtingum, og þess vegna verður að vinna að því að bæta þetta böl með hófsemi og aðgerðum í slíkum anda, en ekki með öfgum og yfirdrepskap. — Varðandi það mál, sem hér liggur fyrir, vil ég ítreka það, að ef menn vilja ekki láta veita þessi hlunnindi, þá leiðir það til þess, að risnan verður þá þeim mun minni, nema beint fé til hennar verði aukið. — Varðandi annað, sem hér hefur verið drepið á, þá varð ég hissa á því, að hv. þm. V-Húnv. (SkG) skyldi ekki vita, að ráðh. hafa um langt skeið fengið bíla með sérstökum kjörum. Ég hef að vísu ekki notfært mér þetta enn, en mundi ekki skammast mín fyrir að nota þessi hlunnindi, meðan þau eru í gildi, vegna þess að mér er ljóst, að sú staða, sem ég gegni, er þannig launuð, að ég teldi mér það ekki of gott. — Þetta mál kemur ekkert siðferðinu við, heldur er hér um bókfærsluatriði að ræða, þar eð verði sum þessara hlunninda felld niður, hefur það í för með sér aukinn tilkostnað á öðrum útgjaldaliðum ríkisins.