28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3530)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en vil aðeins víkja nokkrum orðum að þeim misskilningi, sem mér virðist hafa komið hér fram við þessar umr. Ég skal skýra frá því, að hv. forseti Ed. hefur aldrei minnzt á hinn margumrædda „bar“ hér í þinghúsinu við mig öðruvísi en í góðlátlegu gamni, og það er óhætt að gleðja hv. þm. með því, að honum hefur ábyggilega aldrei komið til hugar að hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd, og ef hv. forseti Sþ. hefur ekki þurft að beita sér meir gegn neinni annarri hugmynd já, þá verð ég að segja, að hann hefur ekki þurft að beita sér mikið. Ég held sem sagt, að við getum verið alveg rólegir fyrir því, að „bar“ verði settur hér upp í húsinu. Hitt er rétt, að sumir þeir þm., sem farið hafa utan og séð fyrirkomulag svipað þessari „bar“hugsjón hér, hafa verið að gamna sér við það sín á milli, að dýrlegt væri að hafa slíkan „staupabar“ í þessu þinghúsi, eins og tíðkast víða erlendis. Hvað snertir ræðu hæstv. utanrrh., þá gat ég ekki betur heyrt en að hann væri andvígur þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, og hann væri þess fýsandi, ð fyrirkomulag það, sem gilt hefur í þessum efnum, fái að haldast í framtíðinni. Hæstv. ráðh. gat þess, að einu sinni hefði verið harkalega ráðizt á sig fyrir 20 þús. kr. vínreikning eftir veizlu eina opinbera. Ég minnist þessa. Þetta varð til þess, að hann fór að athuga gamla vínreikninga og hneykslaðist hann stórum yfir þeim, enda ekki undarlegt. Hann sagði þá í ræðu sinni, að sumir þeirra embættismanna, sem hér væri um að ræða, væru ekki það vel launaðir, að þeim veitti af að njóta þessara ívilnana um kaup á víni og tóbaki, þar sem þeir þyrftu að halda uppi allmikilli risnu. Þarna kom það fram í ræðu hæstv. utanrrh. sem svo víða annars staðar, að mönnum nú til dags þykir ekki mikið til koma ráðherralaunanna eða launa, sem eru þeim jafnhá, eins og t. d. kom fram, þegar bæjarstjórnarmeirihlutinn á Ísafirði réð í haust bæjarverkstjóra og gat ekki fyrir hans hönd gert sig ánægðan með minna en ráðherralaun, og þegar við það er miðað, þá er kannske ekki að furða, þó að þeir vilji bæta laun sjálfra ráðh. með hagkvæmum vínkaupum.

Það hefur komið fram hjá sumum ræðumönnum hér, að hentara væri að hækka laun ráðh., en afnema þessi fríðindi, og ég er því algerlega samþykkur. Með því væri útrýmt og afnumin sú óhreina bókfærsluleið, sem með þessu er farin. Nú er það upplýst, að þessi hlunnindi nái ekki einungis til víns og tóbaks heldur einnig til bifreiða, og er kannske út af fyrir sig ekki svo mikið við því að segja, úr því að laun ráðh. eru svo lág, en ef einhver ráðh. notar þessi hlunnindi þannig, að hann veiti öðrum þau einnig, og allt af fleiri og fleiri, þá er það, eins og allir sjá, óafsakanlegt og hlýtur að leiða til óreiðu og aukinnar eyðslu.

Þá er það enn eitt við þetta fyrirkomulag, sem mér geðjast ekki að. Ef einhver af þeim mönnum, sem þessara hlunninda njóta, fer niður í áfengisverzlun og kaupir þar flösku af víni — og þótt hann meira að segja kaupi þessa flösku með útsöluverði og borgi það út í hönd —, þá fellur samt á hann grunur vegna þessa fyrirkomulags, og það er eitt með öðru nóg til þess að þetta fyrirkomulag verður að hverfa. Það er ekki fyrst og fremst vegna þess, að þeir, sem þessara hlunninda hafa notið, hafi notað þau svo óhóflega — þótt svo hafi reyndar verið í sumum tilfellum — heldur vegna þess, að þetta fyrirkomulag er óhafandi svo margra hluta vegna. Hvernig ættu t. d. þessar launauppbætur að koma fram, ef hlutaðeigandi kærir sig alls ekki um að kaupa vín? Á máli þessu er mórölsk hlið, og það fyrirkomulag, sem nú gildir, hlýtur að setja menn í vanda og baka ýmiss konar tortryggni og erfiðleika og á því hiklaust að afnemast með öllu og víkja fyrir betra skipulagi í þessum efnum.