28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3531)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. og mun því verða stuttorður.

Hæstv. utanrrh. minntist hér á veizlu nokkra, sem haldin var af ákveðnum ráðh. Þessi samkunda mun hafa verið þing Alþýðusambands Íslands. Það gerði sínar samþykktir um áfengismál, og ég verð að játa, að þessir vínreikningar voru mér vonbrigði. Ég hygg hins vegar, að ummæli andstæðinga Alþýðusambands Íslands um þessa veizlu hafi verið nokkuð beiskju blandin og stafi þau af óánægju út af því, að þarna skyldi haldin veizla með vínveitingum fyrir sauðsvartan almúgann.

Eins og nokkrir ræðumenn hafa sýnt hér fram á, þá er fyrirkomulag það, sem gildir í þessum málum, óhæft og óviðunandi og því auðsætt, að till. sú, sem hér er fram borin, hefur við gild rök að styðjast. Ég skal ekkert um það segja, hvaða ályktanir verði dregnar af þeim umr., sem hér hafa farið fram um mál þetta, en engan hef ég heyrt halda því fram, að ástand það, sem nú ríkir í áfengismálunum, sé viðunandi lengur, þótt menn hins vegar greini á um, hvað verða megi til bóta. Hygg ég, að megi með réttu segja um mál þetta í heild: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina, sér leyfist það. — Það er því álit mitt, að þennan ósið, sem komizt hefur á í þessum efnum, beri að afnema hið bráðasta og að ríkisvaldið eigi meira að segja heldur að launa þessa menn svo sæmilega, að slíkra hlunninda sem þessara þurfi alls ekki með til þess að bæta afkomu þeirra, enda ekki vansalaust né á neinn hátt viðeigandi að gera það á þennan hátt.