26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3539)

46. mál, vinnuhælið á Litla-Hrauni

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að mótmæla þeim rökum, að nauðsyn sé að stækka Litla-Hraun. Það er rétt, að þar þyrfti að vera meira pláss — því miður. Það er ekki það, sem ég vildi drepa á í þessu sambandi, heldur annað. Það er til gömul samþykkt frá Alþingi um, að ríkisstj. sé falið að athuga möguleika á því að flytja vinnuhælið í burtu frá Litla-Hrauni. Menn voru þá sammála um, að vinnuhælið skyldi ekki vera í sveit sett svo nærri Eyrarbakka, en á einhverjum öðrum afviknari stað. Þetta var nú samþykkt á Alþingi, en ég veit nú ekki til þess, hvort nokkur ríkisstj. hefur athugað þetta. En tilefni þessarar tillögu var það, að menn vissu, að það var kauptúnsbúum á móti skapi, að niðurstaðan með staðsetningu vinnuhælisins varð svo að segja mitt á meðal þeirra. Ég vona, að hv. alþm. skilji, hvað átt er hér við. Hælið varð til að hálfu sem neyðarráðstöfun, og húsakynni þess, eða það hús, sem notað er fyrir fangelsi nú, var upphaflega byggt sem spítali, og var því óhentugt til annarra hluta. Vegna þess að ekki voru tök á að fullgera þennan spítala, var hælið dæmt til að setjast á þessar stöðvar — mitt á meðal fólksins. Ég skal ekki mótmæla. till. þeirri, sem hér liggur fyrir, heldur vildi ég fyrst og fremst minna á, að Alþ. samþykkti að breyta hér til, eins og íbúar Eyrarbakka vildu, og eftir því skyldi fara, ef nokkuð mark skal taka á því, sem Alþingi ályktar. Mér finnst erfitt að þegja slíkt fram af sér. Það er ekki hægt að samþykkja þetta eða hitt og skjóta svo skollaeyrum við öllu saman. Það er ábyggilegt, að heppilegra er fyrir vistmenn á vinnuhæli að vinna afsíðis en meðal annarra manna. Og sama mun vera með staðarval í borg, að þar koma sömu gallar í ljós, og því komu þessar óskir fram, að hælið yrði flutt á afviknari stað. Gamla þáltill. miðaði í þessa átt. Skapgerð mín er þannig, að mér fannst rétt að minna á þetta. Það er óhæfilegt að samþykkja einhvern hlut, en gleyma honum svo.