05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3553)

48. mál, brýr á Álftaskálará og Vatnsdalsá

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég býst við, að það gætu orðið langar umr. á þingi, ef rætt væri um það, hvort þessi brú eða hin er nauðsynleg í þessu og þessu héraði. Ég skal ekki fara langt út í umr. um þessa till. En það er mér sönn ánægja, ef svo er sem virðist vera eftir sumum ummælum hv. frsm., að hann hafi iðrazt eftir að hafa greitt atkv. gegn fjárveitingu til þessara brúa í Vatnsdalnum í fyrra, því að það var hér till. á þingi í fyrra um að heimila ríkisstj. að leggja fram 100 þús. kr. fjárveitingu til þess að byggja þessar brýr, en þá greiddi þessi hv. þm. og hans flokksmenn, að undanteknum hv. þm. S-Þ., atkv. á móti þeirri till., og því féll hún þá. Og þar að auki er þessi hv. þm. með frv. í Ed. um það að fella, niður kafla af núverandi sýsluvegi í Húnaþingi.

Það er ekki til neins að tala um vilja eins eða annars á því nú, hvar brúin eigi að vera. Það er þegar búið að ákveða það ef vegamálastjóra. Það sýnir sig líka, að tilgangur hv. flm. með þessari till. er ekki annar en sá að rægja saman einstaka menn, með því að bera fram till. á víxl um brúargerðir í sama héraði.

Varðandi það að taka það fé, sem ætlað er til Blöndubrúar í Svínadal, þá tekur það náttúrlega ekki neinu tali, því að þessi brú á Blöndu hefur þegar verið ákveðin með samþykki Alþ., og er gert ráð fyrir að byrja á þeim framkvæmdum nú á næsta sumri, enda er það svo nauðsynlegt, að það má ekki dragast, meðal annars vegna þess, að það kostar ríkissjóð tugi þúsunda króna á hverjum vetri umfram það, sem þyrfti að vera, að halda opinni þessari leið gegnum Langadalinn, í stað þess að fara Svínvetningabrautina að vestan og svo norður yfir. Það er satt, að stytting á leiðinni kemur ekki til greina, fyrr en búið er að leggja Reykjabraut. Það getur tekið nokkur ár, en þá styttist leiðin um 15 km. Ég býst við, að sá vegur yrði ekki farinn nema að vetri til, en það er nauðsynlegt að fá þann veg, og Blöndubrúin er jafnnauðsynleg fyrir því.

Annars mætti koma með margvíslegar till., ef menn ætla sér, að hægt sé að færa á milli liða, það sem þegar hefur verið ákveðið í fjárl. Það mætti t. d. benda á það, ef hægt væri að taka upp slíka reglu, að taka það fé, sem ætlað er til Hvalfjarðarferjuvegar og kannske kemur aldrei til framkvæmda, og byggja fyrir það fé brú eða skóla, eða þá taka það fé, sem veitt væri til skólans í Skálholti, og byggja fyrir það brú á Þjórsá, og þá alveg eins að taka fé frá áburðarverksmiðjunni og byggja fyrir það einhver önnur mannvirki. Að taka allt slíkt fé, sem þegar er ákveðið, og færa það á milli liða, tel ég ekki geta náð nokkurri átt, enda þótt um nauðsynleg mannvirki sé þar að ræða, eins og t. d. brýrnar í Vatnsdalnum. Eina leiðin í þessu máli er að fá fjárveitingu til þess að byggja þessar brýr. Enda er sannleikurinn sá, og það er út af fyrir sig mjög eðlilegt, að það sé ágreiningur um það hér á þingi, þegar rætt er um að fá fjárveitingu fyrir byggingu brúa, vegna þess að slíkar framkvæmdir eru ákaflega aðkallandi víðs vegar um landið og að mínu áliti látnar sitja á hakanum oft og tíðum og það miklu fremur en margar aðrar.

Ég mæli ekki á móti, að þessi þáltill. fari til hv. fjvn. Ég veit, að hún mun aldrei mæla með því að taka fé frá Blöndubrúnni eða öðrum framkvæmdum, sem þegar er búið að ákveða. Ég vona, að hv. fjvn. styðji það vel, að lagt verði fram fé á næsta ári til þess að byggja þær brýr, sem hér er um að ræða.