05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3556)

48. mál, brýr á Álftaskálará og Vatnsdalsá

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég held, að hv. þm. A-Húnv. sé alls ekki ljóst, hvað hann er að segja viðvíkjandi breytingunni á vegalagningunni, sem hann talaði um. Hvernig hljóðar gr. nú? Leiðin liggur yfir Vatnsdalsá á brú. (JPálm: Yfir að Ásbrekku). Nei, það er alls ekki búið að ákveða, hvar sú brú eigi að vera. Vegamálastjóri athugaði mælingar í sumar, hvort hún á að vera framfrá eða útfrá, og fyrst þegar hann er búinn að athuga þær mælingar, tekur hann ákvörðun um það, á hvorum staðnum brúin verði. Hv. þm. A-Húnv. veit þetta. Mín till. um veginn slær aðeins föstu, að þó að brúin komi utar, skuli þó þjóðvegur alltaf liggja að Ásbrekku.

Það er langt frá því, að ég hafi samvizkubit út af því, hvernig ég greiddi atkv. í fyrra um þetta mál. Hitt get ég vel skilið, að hv. þm. A-Húnv. hálfgremjist, að hann skyldi ekki reyna að nota það ráð, sem ég gaf við atkvgr. í fyrra, að þar sem ekki væri búið að gera neinar áætlanir um þessar brýr í Vatnsdalnum, væri varla hægt að veita fé af fjárl. til framkvæmda. en hins vegar væri hægt að taka fé til láns í bili, sem ætlað væri til brúar á Blöndu. Ég veit, að það hefði verið unnt í sumar að fá fé úr Blöndubrúarsjóði til að byggja þessar brýr, og þá hefðu þessar brýr verið komnar á núna. Það þarf þess vegna ekki að verða til þess að tefja fyrir Blöndubrú, ef Alþ. vill veita þetta fé. Það eru 1.6 millj. kr., sem til þess þarf, að hægt sé að byrja á Blöndubrú, og ætti að verða hægt að endurgreiða þetta fé, sem þessar brýr kosta. áður en sú upphæð er komin í sjóðinn, er þarf til að brúa Blöndu.