26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (3568)

60. mál, uppeldisheimili

Flm. (Katrín Thoroddsen) :

Herra forseti. Að till. þessari til þál. standa 5 þm., meðlimir í heilbr.- og félmn. hv. Nd., og var n. öll einhuga um að flytja þessa till. Á síðasta Alþ. kom fram, einnig frá sömu n. eða mönnum úr sömu n., mjög áþekk till., og kom hún seint fram og varð ekki afgr. En orsökin til þess, að hún kom svo seint fram, var sú, að það var ekki ástæða til þess að bera hana fram fyrr en l. um vernd barna og unglinga voru samþ., en það var snemma í apríl s. l., að mig minnir. Í þeim l. var svo ákveðið, að ríkið skuli setja á stofn tvær stofnanir, annars vegar fyrir börn, sem andlega eru miður sín, og uppeldisheimili fyrir börn og unglinga, sem eru á glapstigum siðferðislega. Í hinum nýju barnaverndarl., sem samþ. voru, er talað um, að þessar stofnanir skuli reistar, þegar fé sé veitt til þess á fjárl., og var okkur ljóst, sem flytjum þessa þáltill., að stofnun, sem taka á þessi börn, þarf mikils undirbúnings áður en hún er reist, og þarf því að hefja þann undirbúning nú þegar. Auk þess er mikil nauðsyn á, að stofnunin komist upp til þess að hægt sé að segja fyrir um, hvernig með hvert barn skuli fara.

Það tekur langan tíma að koma þessari stofnun á fót, líklega ekki minna en 3–5 ár, og okkur er ljóst, að hún þarf rækilegs undirbúnings, bæði með stofnsetningu og fyrirkomulag, sömuleiðis með starfsfólk. Við teljum því mikla, nauðsyn á því, að sem fyrst sé hafinn undirbúningur að því að koma upp þessari stofnun, og því flytjum við þessa till.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál. Það var gert á síðasta þ., og það er svo skammt síðan, að ég sé ekki ástæðu til að taka það upp aftur. Aðeins vil ég geta þess, að mér þótti leitt að sjá þessa ekki getið með einum staf í fjárlfrv., en það verður athugað á sínum tíma. — Ég vænti, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, — allshn. þætti mér heppilegast — sýni því fullan skilning og eins að þ. sæi sér fært að samþ. till. og stj. að framkvæma hana.