19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (3574)

63. mál, fæðingardeildin í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það er rétt, að fæðingardeildin hefur verið nokkuð lengi í byggingu, eins og ýmis önnur hús í þessum bæ og þessu landi. Eftir að ég tók við starfi heilbrmrh., fékk ég skýrslu frá stjórn ríkisspítalanna um það, hvernig þetta mál stóð, og gerði ég það með það fyrir augum að koma rekstrinum af stað sem allra fyrst. Mér var þá gefin skýrsla um það, að það vantaði innbú í húsið og enn fremur þýðingarmikla hluti í sambandi við sjálfa bygginguna, og enn fremur var mér skýrt frá því, að sumpart væru fengin fyrir þessu innflutningsleyfi, en yfirfærslur væru ekki fyrir hendi, og sumpart væru ekki fengin innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Þessu næst átti ég tal við landlækni og húsameistaraskrifstofuna um það, að þessar stofnanir ýttu á eftir þessu máli með leyfisveitingar og yfirfærslur, og lagði ég áherzlu á, að þessir aðilar fylgdu þessu fast eftir við viðkomandi stofnun, en þetta allt með þeim hörmulega árangri, að ekki er búið að fá yfirfært, þrátt fyrir eftirgangsmuni, allar þær fjárhæðir, sem nauðsynlegar eru til þess, að þetta nytsemdarfyrirtæki komist í framkvæmd. Það hefur verið gerð hver hríðin eftir aðra í þessu, og nú síðast fyrir nokkru hefur heldur losnað um, þannig að skriður er nú loks kominn á þetta, þannig að það má gera sér vonir um, að gjaldeyrisörðugleikunum sé úr vegi hrundið, en þó hefur þetta nú allt saman orðið til þess að tefja framkvæmd málsins um langan tíma. En það er áreiðanlega víst, að ríkisstj. leggur á það áherzlu, að þessi rekstur fari af stað svo fljótt sem nokkrir möguleikar leyfa. Hins vegar hafa menn skirrzt við að gera í þessum efnum bráðabirgðaráðstafanir, sem gætu verið kostnaðarsamar, en aðeins að gagni til bráðabirgða, í þeirri von, að málinu yrði að fullu kippt í lag. Nú vil ég fyrir mitt leyti taka það fram, að ég tel þessa þáltill. algerlega —óþarfa. Það er fullvíst, að það verður gert í þessu allt, sem unnt er, til þess að flýta þessu. En ef þingið er í einhverjum vafa um, að það verði gert, þá vil ég leggja til, að þessari till. verði vísað til n., og fari fram í þeirri n. athugun á því, hvernig þetta mál stendur og hvort ástæða er fyrir þingið að gera um það ályktun. Ég geri það því að minni uppástungu, að málið fari til allshn. Það hefur engin áhrif á gang málsins, hvort þetta er samþ. í dag eða síðar, það verður gert allt í þessu, sem unnt er, hvort sem er. Þess gerist ekki heldur þörf að bera fram till. um það, undir hvers yfirstjórn þetta skuli vera, nema því aðeins að breytt yrði til frá því, sem nú er. En beinast liggur við, að fæðingardeildin sé undir yfirstjórn yfirlæknis handlæknisdeildar landsspítalans eins og fæðingardeildin hefur verið, og hefur ekki verið gerð nein ákvörðun um að breyta því, og mér hefur skilizt, að landlæknir leggi til, að því verði þannig fyrir komið. En það verður vitanlega afráðið mjög fljótlega. — Ég hef svo ekki meira við þetta að bæta, en styð þá till., að málinu verði vísað til nefndar.