19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3575)

63. mál, fæðingardeildin í Reykjavík

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 115 á ég brtt. við þáltill. þá, sem hér er til umr. Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er sú, að ég tel mér ekki fært að greiða málinu atkv. eins og það liggur fyrir, en er þó fyllilega samþykk þeim ákvæðum till., er lúta að því, að ríkisstj. verði falið að láta fæðingardeildina taka til starfa hið allra fyrsta. Það er niðurlag till., sem ég get engan veginn fallizt á og legg því til, að orðin „undir yfirstjórn forstöðumanns handlæknisdeildar landsspítalans“ falli niður. Ég þykist mega ráða í það, að þetta orðalag sé sprottið af ókunnugleik eða misskilningi hv. flm., sem auðheyrilega er annt um, að deildin taki til starfa sem fyrst, ella hefði hann ekki tengt það því skilyrði, að forstöðumaður handlæknisdeildarinnar verði endilega forstöðumaður fæðingardeildarinnar. Það er varhugavert af Alþ. að ætla sér að tryggja hag stofnunarinnar með því skilyrði. Það gæti orðið til þess að tefja fyrir því, að hún taki til starfa, því að ef hlutaðeigandi yfirlæknir neitaði að taka við svo miklum starfa, sem á hann hefði verið lagður að honum forspurðum, þá er till. orðin marklaus og skilyrðið til þess eins að tefja framgang málsins.

En ókunnugleiki flm. kemur ekki aðeins fram í þessu eina atriði. Hann minntist á, að það vantaði lyftu í húsið, en það vantar bara margt fleira. Rúm eru að vísu tilbúin, en margt vantar, sem hægt er að útvega og hæstv. heilbrmrh. hefur lofað, að komi sem fyrst, svo sem húsgögn, búsáhöld, lín, hreinsunartæki og læknisáhöld.

Auðvitað hefði átt að vera búið að velja forstöðumann fæðingardeildarinnar, þegar hún var reist, svo að hann hefði getað verið með í ráðum um fyrirkomulag hennar og útbúnað allan. Þá hefði verið betur á öllu haldið, ef slíkur maður hefði haft aðgang að hlutunum og getað rekið á eftir. Þá hefði það verið sjálfsagður hlutur að skipa forstöðumann svo tímanlega, að hann hefði einnig getað haft tíma til að fara utan til að kynnast nýjungum í sérgrein sinni, en þetta hefur verið vanrækt. Ekki er það þó vegna þess, að heilbrigðisstjórninni hafi ekki verið gert aðvart um nauðsyn slíks, þó að hún hefði auðvitað átt að gera það ótilkvödd. Guðmundur Thoroddsen yfirlæknir skrifaði stjórnarnefnd ríkisspítalanna bréf, er verið var að grafa fyrir grunni fæðingardeildarinnar, og gerði þar þær till. um læknafjölda við hana, að auk yfirlæknis yrði ráðinn fastur aðstoðarlæknir og tveir kandídatar, því að ekki er hægt að ætlast til, að einn kandídat vinni í 24 tíma, á sólarhring, þarna þarf læknir ætíð að vera viðlátinn. Þetta bréf, sem ég nefndi, var sent í apríl 1945, og því hefur ekki verið sinnt á neinn hátt enn þá. Ég býst við, að sumum vaxi í augum læknafjöldinn, og það er eðlilegt, að þeim vaxi hann í augum, sem álíta, að fullséð sé fyrir læknaþörf hinnar nýju fæðingardeildar með ígripavinnu frá annarri stofnun í öðru húsi. En þeir, sem þannig hugsa, gera það af algerum ókunnugleika um þau störf, sem hér um ræðir og vinna á í fæðingardeildinni. Gert er ráð fyrir, að þar verði 1000 til 1200 fæðingar á ári, en auk þess konur, sem eru sjúkar um meðgöngutímann, en hafa ekki haft neitt athvarf fram að þessu, enn fremur konur með hafnarlos og ýmsa kvensjúkdóma, og loks fer þarna fram skoðun á þeim konum, sem þangað eru komnar, og hinum, sem ætla að komast þangað. „Líkn“ hefur hingað til haft veg og vanda af slíkri skoðun og haft opið tvisvar í viku í því skyni, eina klukkustund í hvert skipti, en það er allt of lítið, og þarf að ætla slíkri skoðun 1–2 klukkustundir á dag í hinni nýju fæðingarstofnun, því að auk skoðunar fyrir fæðingu þarf að skoða konurnar áður en þær yfirgefa fæðingardeildina, og loks þarf að skoða þær einum, tveimur til þremur mánuðum eftir að þær eru farnar þaðan.

Þegar alls þessa er gætt, nær það engri átt, að yfirlæknisstarfið við þessa stofnun sé neitt íhlaupastarf, og tel ég því fráleitt að fallast á niðurlag till. Mér þótti gott að heyra, að hv. flm. gerði sig ánægðan með brtt. mína, og ég vona, að hann greiði henni atkv. Það er óviðfelldið að samþ. þessa þáltill. eins og hún liggur fyrir, það er óviðfelldið, að Alþ. samþ. ályktun, sem beinlínis miðar að því að skikka ákveðinn mann í ábyrgðarmikilli og umfangsmikilli stöðu til að taka að sér mjög ábyrgðarmikið aukastarf, sem með öllu er ósamrímanlegt því aðalstarfi, sem hann hefur fyrir, og hefur hann sagt mér, að hann mundi segja af sér störfum, ef til kæmi, að skikka ætti hann í eitt starfið í víðbót. Hann er þegar bæði prófessor og yfirlæknir, og er hvort það starf fyrir sig talið fullnóg fyrir einn mann, en verður samt ekki aðskilið hér, og með góðum vilja má létta undir erfið skilyrði: Og vinnuskilyrði prófessorsins eru mjög erfið og slæm. Upphaflega var handlækningadeildin ætluð fyrir 40 sjúklinga, en þar liggja nú aldrei færri en 60. Þó komast ekki nærri allir að, sem biðja um pláss, og stöðugt liggur fyrir stafli af inntökubeiðnum, og því fylgir aftur stöðugt nudd og suð lækna og aðstandenda þeirra, sem bíða eftir sjúkrahúsvistinni. Allir þurfa þeir persónulega að tala sínu máli við yfirlækninn, og sumir oft á dag, unz þeir hafa haft sitt mál fram. Auk þessa er komið með öll slys, smá og stór, sem verða í Rvík og nágrenni bæjarins, og í öllu þessu verður yfirlæknirinn að standa og bera ábyrgð á því alla daga vikunnar, virka og óvirka, nótt og dag, og þó að hann hafi aðstoðarlækni, er það ekki nægilegt, hann verður að vinna miklu meira en við hliðstæðar erlendar stofnanir og hefur engan tíma til vísindaiðkana og því síður til að sinna hugðarefnum sínum. Auk þessa þarf Guðmundur Thoroddsen að inna af hendi hina almennu kennslu við læknadeild háskólans, kenna við ljósmæðraskólann og veita honum forstöðu og veita forstöðu hinni litlu fæðingardeild í landsspítalanum. Það þekkist hvergi í heiminum nema hér, að sami maðurinn skipti sér þannig á milli tveggja jafnólíkra greina og handlækninga og kvensjúkdóma og fæðingarhjálpar í starfi og kennslu. Það er ekki ætlazt til þess, að neinn sé svo fær, að hann inni hvort tveggja af hendi, svo að hvorugt líði við það, gangi þannig tvískiptur að verki. Ástæðan til þess, að litla fæðingardeildin fylgdi handlækningadeildinni í upphafi, var sú, að þegar spítalinn var stofnaður, var allt þar svo ómyndarlegt að fyrirkomulagi og deildin lítil. Þar var aðeins talið rúm fyrir 12 konur, þó að venjulega hafi verið þrengt þar inn 19 konum í einu, og af þessum sökum var ekki talið gerlegt að hafa sérstakan yfirlækni fæðingardeildarinnar. Nú er þetta gerbreytt. Þetta gat gengið á meðan konurnar voru fáar og í sama húsi, að hafa sama yfirlækni fyrir báðar deildirnar, handlækningadeild og fæðingardeild, en það getur ekki gengið, þegar hlaupa þarf á milli húsa og sinna sjúklingum, enda verður nýja fæðingardeildin margfalt fjölmennari en sú gamla, og þar verður alltaf að vera læknir til taks og sérstakur yfirlæknir. Það skaðar ekki að minna heilbrigðisyfirvöldin á, að Guðmundur Thoroddsen prófessor á aðeins eftir fjögur ár, þar til hann lætur af störfum, og ég tel mjög vafasamt, að hann gegni lengur embætti en hann nauðsynlega þarf, og mér er enn fremur kunnugt um, að frá þeirra hendi, sem ættu um slíkt að tala, hefur hann ekki verið beðinn um að taka að sér það starf, sem á að fá honum með niðurlagi þessarar till., en hitt má ég fullyrða, að hann muni ekki láta skikka sig á milli stofnana.

Ég hef nú orðið nokkuð langorð um þetta mál, sökum þess að mér er ekki grunlaust um, að ókunnugleika gæti þar hjá fleiri en hv. flm. Ég mundi fylgja því, að það færi í nefnd, ef till. kæmi fram um það, en allar upplýsingar er einnig hægt að fá hjá læknadeild háskólans og yfirlækni núverandi fæðingardeildar.