28.01.1948
Sameinað þing: 38. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (3604)

86. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Flm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. dómsmrh. hefur fagnað þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir. Hefur hann heitið málinu stuðningi sínum, þannig að utanrmn., sem till. að sjálfsögðu fer til, taki málið til rækilegrar og gaumgæfilegrar athugunar. Vildi ég mega vænta þess, að svo skipist málum í meðferð utanrmn. á till., að hún eigi þar svipuðu gengi að fagna og till. sú um Grænlandsmál, sem Jón Þorláksson flutti árið 1931, en hún var, eins og hef áður sagt, afgreidd frá n. með samhljóða atkvæðum. Þá er og þess að vænta, að lokinni athugun utanrmn. á till., að hún fái og hjá Alþ. svipað brautargengi og fyrrnefnd till. Jóns Þorlákssonar fékk á sínum tíma, enda þarf nú, eins og komið er, að hraða máli þessu, þar sem það er þýðingarmikill þáttur í því uppgjöri, sem nú er að hefjast milli Íslendinga og Dana eftir sambandsslitin.

Hæstv. dómsmrh. taldi, að það gæti nokkuð orkað tvímælis, samkvæmt orðalagi þáltill. minnar, hvort sú merking fælist í henni, að Íslendingar krefðust yfirráðaréttar yfir Grænlandi, eða eingöngu væri að því stefnt að Íslendingar fengju þar — máske með því að láta sérstök fríðindi á móti koma — atvinnuréttindi en að yfirstjórn Dana héldist eftir sem áður.

Út af þessu vil ég taka það skýrt fram, eins og bæði grg. fyrir till. og ræða mín, er ég fylgdi till. úr garði staðfestir, að það er tilgangurinn, að Íslendingar krefjist óskoraðs réttar til atvinnurekstrar og landsyfirráða á Grænlandi. Ef mönnum lízt, að þessi hugsun samrímist ekki að öllu leyti orðalagi till. eins og hún er, stendur það vitanlega til bóta, og mundi ekki þurfa annað en að skjóta inn í till. einu orði, til þess að þetta kæmi alveg óvéfengjanlega í ljós. Hæstv. dómsmrh. (BBen) sagði og, að allur málflutningur minn í sambandi við till. benti til þess, að þetta væri meiningin. og er það alveg rétt skilið hjá hæstv. ráðh.

Það er á grundvelli þessarar kröfu af hálfu Íslendinga, sem ég legg til, að mál þetta sé lagt fyrir alþjóðadómstól til úrskurðar, ef samkomulag næst ekki milli Íslendinga og Dana um þá lausn á málinu, sem Íslendingar geta sætt sig við og þeir telja sig vel sæmda af.

Viðkomandi því, þegar ég tala um, að samkomulag geti náðst um þetta mál milli Íslendinga og Dana, þá gæti komið til mála, að samið yrði án þess að við fengjum að því sinni fullnægt kröfum okkar um landsyfirráð á Grænlandi, en samkomulagið tæki til þess, að viðurkenndur yrði réttur Íslendinga til atvinnurekstrar á Grænlandi og við strendur þess, en slíkur samningur kæmi því aðeins til greina, að Íslendingar gerðu hann með fyrirvara um, að þeir héldu eftir sem áður sínum sögulega eignarrétti til Grænlands. Að önnur fríðindi kæmu á móti af hálfu Íslendinga við slíka samningagerð en þau að falla frá því um óákveðinn tíma að halda til streitu kröfunum um landsyfirráð á Grænlandi, kæmi vitanlega ekki til greina undir neinum kringumstæðum. Íslendingar hafa ekki til þessa samið af sér nein réttindi viðvíkjandi Grænlandi.

Þótt segja megi, að Alþ. hafi verið tómlátt í þessu máli, þá hefur sú aðgerðahægð ekki leitt af sér neina skerðingu á rétti Íslendinga í þessu efni, og geta þeir nú, er Alþingi og ríkisstjórn tekur upp þessar kröfur. þess vegna haft í fullu tré um sókn þessa máls.

Þegar sambandslagasáttmálinn var gerður, geymdu Íslendingar óskertan rétt sinn í þessu máli. Þá höfðu þeir því erfiða og þungsótta verkefni að sinna að sækja í hendur annars ríkis rétt sinn, er það hafði setið yfir í margar aldir, og að fá sjálfstæði sitt og fullveldi viðurkennt. Var þetta torsótt mjög og urðu Íslendingar að slá af kröfum sínum í fjárskiptum landanna til þess að fá að því sinni fullveldisviðurkenningu. En rétt sinn til Grænlands varðveittu Íslendingar þá sem endranær. Kröfur þær um endurheimting þessa réttar, sem háværar raddir voru uppi um eftir 1918, eru góð sönnun þess, að réttur vor í því efni var geymdur, en ekki gleymdur.

Aðgerðir Alþingis árið 1931 í þessu máli styrktu rétt Íslendinga, en veiktu hann ekki. Íslendingar komu þá á framfæri við dómstól þann. sem gerði út um deilu Norðmanna og Dana um yfirráð yfir Austur-Grænlandi, yfirlýsingu af þeirra hálfu um það, að þeir teldu sig hafa réttar og hagsmuna að gæta ekki einasta í þeim hluta Grænlands, sem deilan stóð um, heldur á Grænlandi í heild. Jafnframt því, sem þeir beindu athygli dómsins að þessu, mótmæltu þeir því, að Grænlandi væri skipt, eins og orðið hefði, ef Norðmenn hefðu borið hærri hlut í deilunni. Þetta ávannst. Landinu var ekki skipt. Að öðru leyti létu Íslendingar málið ekki til sín taka að því sinni.

Það vakti fyrir Alþingi þá, að mál þetta yrði tekið upp eftir sambandsslit ríkjanna. Þetta sanna ummæli Jóns Þorlákssonar, þau er ég las upp úr ræðu hans í gær.

Í dómsniðurstöðum Haagdómstólsins er ekkert um það sagt, að Danir hafi yfirráð Grænlands, heldur eru Norðmenn dæmdir frá yfirráðum á þessu umdeilda landssvæði. En í forsendum dómsins er vikið að því, að í þessu efni sé réttur Dana ríkari en Norðmanna.

Þessi dómur gefur því enga bendingu um það, hvernig alþjóðadómstóll mundi dæma um kröfur Íslendinga til réttar á Grænlandi. Danir notuðu í málfærslu sinni gegn Norðmönnum, að Grænland hefði byggzt frá Íslandi, en ekki frá Noregi. Hafi þetta verið vatn á myllu Dana í deilunni, hversu mundi þá ekki verða ríkari réttur Íslendinga í þessu efni en Dana, sem ekki komu hér við sögu fyrr en mörgum öldum síðar.

Hæstv. dómsmrh. fór nokkrum orðum um þær skoðanir, sem uppi væru hér á landi meðal fræðimanna um sögulegan rétt Íslendinga til Grænlands. Minntist hann í því sambandi á skoðanir Jóns Dúasonar, ekki þó eins og þær koma fram í hans stóra og merkilega riti um þetta mál, heldur gerir hann að umtalsefni blaðagrein eftir Jón og nefnir aðeins eitt atriði, hina svo kölluðu „sjónhelgi“.

Hins vegar drap hann á skoðanir Ólafs Lárussonar, prófessors, í tímaritsgrein, en hann gerir þar lítið úr rétti Íslendinga. Ekki sagðist ráðherrann vilja gera upp á milli þessara skoðana. Hann sagðist ekkert vilja segja um það, sem milli bæri, frá eigin brjósti, en ekki duldist mér þó, að nokkra tilhneigingu hafði hæstv. ráðh. til að gagnrýna rök Jóns Dúasonar fyrir málstað Íslendinga um leið og hann leit, að því er virtist, gagnrýnislítið eða gagnrýnislaust og jafnvel með nokkurri viðurkenningu á skoðanir hins aðilans, sem allar eru í því fólgnar að gera lítið úr rétti Íslendinga. Virtist mér, að þetta væri ekki í fullu samræmi við umgetna hlutleysisyfirlýsingu hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr kenningu Jóns Dúasonar um sjónhelgi. Þetta hugtak hafði ákveðna merkingu til forna, og munu vera til fornir dómar, sem byggðir eru á sjónhelgi einmitt í sambandi við yfirráðarétt á landi og landhelgi, þó að þeir taki til þrengra sviðs en þess, sem Jón Dúason áleit sjónhelgina taka til í því tilfelli, sem hann ræðir um.

Það er fleira í fornum lögum og venjum um að helga eignar- og umráðarétt yfir landi en þetta, sem þykir andkannalegt nú á dögum, þótt gott og gilt væri það á sinni tíð. T. d. var talið, að réttur landeiganda út frá landi hans næði það á sjó út, að flattur fiskur sæist á borðstokki frá landi. Þá var það á landnámsöldinni algeng aðferð við að nema land að fara eldi um landið. Markaðist þá landssvæðið af því, að það sæist frá einu bálinu til annars. Ein kona nam land með þeim hætti, að hún leiddi kvígu tvævetra vorlangan dag, en innan þess hrings, sem hún hafði farið um, var landnám hennar. Ég minntist á þetta til ábendingar um það, að það kastar engri rýrð á þessar að ferðir né sögulegt gildi þeirra, þó að þetta komi einkennilega fyrir nú á tímum.

Ég skal ekki fara út það á þessu stigi málsins að ræða um kenningar þeirra manna, sem telja rétt Íslendinga til Grænlands lítinn eða engan. Ég vil aðeins segja það, að það er ekki í fyrsta sinni, sem menn á Íslandi verða til þess að smíða vopnin í hendur andstæðinga vorra, þegar um hefur verið að ræða baráttuna fyrir sjálfstæði lands og þjóðar. Slík fyrirbrigði eru þekkt í aldagamalli sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. En þrátt fyrir þetta náðu Íslendingar þar settu marki. Kjarni og kröfur þeirra manna, sem stóðu á rétti vorum, varð öllu yfirsterkari og er engin ástæða til að örvænta um, að svo geti einnig farið í því máli, er hér um ræðir.

Hæstv. dómsmrh. minntist á það, að Íslendingar hefðu veitt Færeyingum nokkur fiskveiðaréttindi hér við land. Var réttur þessi framlengdur um takmarkaðan tíma á þessu þingi. Þessi réttindi til handa Færeyingum eru veitt án þess að gerð sé krafa til, að nokkuð komi þar á móti, hvorki frá þeim né Dönum.

Hæstv. dómsmrh. minntist á það í lok ræðu sinnar, að kröfu Íslendinga á hendur Dönum til réttar á Grænlandi hefði máske mátt rekja til gremju þeirrar, sem ólgaði og sauð í Íslendingum, þegar Danir voru okkur þungir í skauti og vildu ekkert slaka til um rétt vorn. Þessi kenning ráðh. fær ekki staðizt. Við samkomulag það, sem náðist milli Íslendinga og Dana með sambandslagasáttmálanum árið 1918, batnaði mjög sambúð þessara ríkja. En einmitt eftir þennan tíma fá kröfur Íslendinga til réttar á Grænlandi byr undir báða vængi. Þetta var eðlilegt. Til þessa tíma var Íslendingum svo þröngur stakkur skorinn til sjálfstæðra athafna í þessu máli, að átak þeirra í þá átt hlaut að verða lint, þó að alltaf lifði í kolunum og Íslendingum væri það ljóst, að þeir ættu þennan rétt. Það var því eðlilegt, að kröfur þessar væru upp teknar strax og færi gæfist, eins og það er eðlilegt og sjálfsagt, að við sambandsslit ríkjanna verði mál þetta til lykta leitt. Það má ekki líta á það sem neina tilbekkni við Dani, að við krefjumst þessa réttar. Íslendingar mundu fara svo að, hvaða þjóð sem í hlut ætti, ef svona stæði á. Þetta hljóta Danir að skilja.

Mér er það ljóst, að það getur farið svo, að það kosti ærna fyrirhöfn af hálfu Íslendinga að sækja þetta mál. Það dugir ekki að kippa sér upp við það. Íslendingar hafa aldrei endurheimt rétt til handa sér nema með mikilli fyrirhöfn og þrautseigju.

Ég gat þess áður, að hæstv. dómsmrh. hefði sagt, að hann vildi ekki gera upp á milli hinna mismunandi skoðana fræðimanna um rétt Íslendinga til Grænlands, og að hann vildi engan dóm fella um þetta deiluatriði að svo stöddu frá eigin brjósti. Ég gat þess enn fremur, að mér hefði virzt, að hann héldi ekki til fulls þessa hlutleysisyfirlýsingu. Ég sé í Alþbl. í dag, að sá, sem skrifað hefur í það blað frásögn um þessar umr. á Alþ. í gær, hefur lagt þann skilning í orð hæstv. dómsmrh., að hann teldi röksemdir þeirra manna, sem gera vildu kröfu til réttinda á Grænlandi, ekki mikilvægar frá lögfræðilegu sjónarmiði. Í Morgunblaðinu í dag er einnig frásögn um þessar umr. Margar og stórar fyrirsagnir eru á fyrstu síðu. Þar stendur fyrst: „Ræða utanrrh. um Grænlandsmálin“. Þessu næst: „Þýðingarlaust að halda fram kröfum, sem enga stoð hafa.“ Og enn fremur: „Haagdómstóllinn úrskurðaði Dönum yfirráðarétt yfir öllu Grænlandi“. Þetta er það, sem fregnritari Mbl. gefur til kynna, að sé aðalkjarninn í ræðu hæstv. dómsmrh. Með öðrum orðum, að kröfur þær, sem Íslendingar halda fram um rétt á Grænlandi, hafi enga stoð — og að Haagdómstóllinn hafi endanlega gert út um yfirráð Grænlands, svo að það sé af þeim sökum þýðingarlaust fyrir Íslendinga að bera fram neinar kröfur í þessa átt.

Ég bendi á þennan málflutning blaðsins með tilliti til þess, að þótt ég gæti ekki varizt því, að mér þætti hæstv. dómsmrh. vera nokkuð slappur í hlutleysinu um hinar mismunandi skoðanir, þá var engan veginn hægt að draga þessa ályktun af orðum hans. Enda sjá allir ósamræmið í því, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það, „að hann vildi ekki gera upp á milli hinna mismunandi skoðana og ekkert segja frá eigin brjósti um það, sem hér ber á milli“ — og hins, að draga hefði mátt þá ályktun af orðum hans, sem fyrirsagnirnar í Mbl. benda til. Ég veit, að þessar fyrirsagnir eru ákaflega geðþekkar Dönum, en ég veit það líka, að það er fjarri hæstv. dómsmrh. að vilja rétta að þeim slíka dúsu. Máske finnur hæstv. dómsmrh. ástæðu til að láta Mbl. strika yfir stóru orðin.

Ég vildi svo enda mál mitt með því að endurnýja það, sem ég sagði í upphafi um skjóta afgreiðslu þessa máls í nefnd og á þingi og að því loknu röggsamlegan framgang ríkisstj. í því að hrinda málinu áleiðis.