03.02.1948
Neðri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

146. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1948

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eins og verið hefur allmörg undanfarin ár, hefur þingi verið frestað og það komið saman að haustinu og setið svo fram eftir næsta ári. Það er öldungis einsýnt, þar sem nú er komið fram í febrúar og fjárl. ekki komin lengra áleiðis en raun ber vitni, að ókleift er að ljúka fjárl. fyrir þann tíma, sem gert er ráð fyrir í 35. gr. þjskr., að reglulegt þing komi saman. Ríkisstj. leggur því fyrir Alþ., eins og verið hefur mörg undanfarin ár, frv. um það, að Alþ. skuli kvatt saman eigi síðar en 1. okt. n.k., og er þá með því reiknað, að þessu reglulega þingi ljúki þegar búið er að afgreiða nauðsynleg málefni og þá sérstaklega fjárl., en að reglulegt þing ársins 1948 komi saman eigi síðar en 1. okt. n.k. Það er að sjálfsögðu heimild til þess að kalla þing saman fyrr, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, og jafnvel að kalla aukaþing saman, en engin ástæða virðist til þess að binda samkomudag reglulegs Alþ. 1948 við fyrri dag en 1. okt., eins og verið hefur undanfarin ár. Vill ríkisstj. því vænta þess, að frv. þetta nái fram að ganga, og vildi ég að þessari umr. lokinni óska eftir því, að frv. yrði vísað til 2. umr., en út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til að gera till. um, að það fari til n., en vel má svo vera ef vill, og ætti það þá heima í allshn.