05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (3624)

97. mál, drykkjumannahæli í Ólafsdal

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég hygg, að allir þm. séu sammála um það, að ástæða sé til að taka áfengissjúklinga úr bænum sérstaklega og ætla þeim vist á hæli. Það hafa að vísu verið nokkrar framkvæmdir í þessa átt, en þær hafa lagzt niður. Hins vegar hygg ég, að ef stjórn og þing vildu veita nokkurt fé í þessu skyni, væri ástæða til að ætla, að Reykjavíkurbær mundi vilja vinna með ríkinu að því að koma upp slíkri stofnun. — Ég hef nefnt Ólafsdal, af því að þarna eru ónotuð húsakynni, þar er góð jörð, þar er fallegt og þar er hægt að ráða fram úr hitaspursmálinu með virkjun í landareigninni. Þau mistök voru með það hæli sem reynt var að reka áður, að þar hafa sjúklingar orðið að biðja um hælisvist, og þeir hafa getað farið, þegar þeir vildu. Mér er einnig sagt, að kostnaður við hvern einasta sjúkling hafi verið svo gífurlega hár, að ég kinoka mér við að nefna þær tölur. Það fyrsta, sem gera þarf í þessu máli, er að finna staðinn og svo að gera undirbúning og fá forstöðu.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til fjvn. og umr. frestað.