05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (3648)

105. mál, Faxaflóasíld

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Fyrst hér hafa orðið umræður um þetta mál utan dagskrár, vildi ég benda á, hvort ekki væri rétt að athuga alla möguleika og meðal annars það, hvort ekki væri hægt að setja á stað Skagastrandarverksmiðjuna. Það er auðvelt að komast til Blönduóss, en erfiðara að halda opinni leiðinni frá Blönduósi til Skagastrandar. Vörubílakostur okkar er nú mjög mikill, og eru eflaust til 500–1000 bílar, sem nota mætti til þessa. Ferðin tekur um sólarhring, hver bíll tekur 20 mál, og 500 bílar munu því geta flutt 10000 mál. Ég vonast til þess, ef síldveiðin heldur áfram, að allar leiðir verði notaðar. Þó að þetta verði dýrt þjóðhagslega séð, er aðkallandi að láta ekki gjaldeyri fara forgörðum. 10000 mál gefa eina millj. kr. Það ætti því að íhuga í þessu sambandi, hvort þetta borgaði sig ekki.