08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3659)

105. mál, Faxaflóasíld

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Þetta er till., sem lá hér fyrir á þingfundi á föstudag. Hún er flutt vegna ástandsins í síldarmálunum hér, og þegar hún var flutt, biðu hér, eins og tekið er fram í grg. till., 70 skip með um 60 þús. mál. Nú liggja hér fleiri skip með heldur meiri síld, en hins vegar hefur ýmislegt skeð í þessum málum í millitíð. Till. þessi hefur í rauninni borið þegar mikinn og góðan árangur, því að strax og hún kom fram, boðaði sjútvmrh. stjórn síldarverksmiðja ríkisins á sinn fund, og þar var ákveðið að taka einn farm af hverju skipi í bing á 22 kr. málið. Kvöldið áður hafði verksmiðjustjórnin rætt málið og ákveðið þar að taka a. m. k. 40 þús. mál og 15 þús. í hús í Hvítanesi við Hvalfjörð, en þar eru mjög erfið löndunarskilyrði. Sú löndun átti að byrja í dag eða á morgun, svo að þær ráðstafanir, sem stjórn SR var búin að gera áður en við fluttum þessa till., drógu ekki úr löndunarstöðvuninni. Ég vil þó þakka hæstv. sjútvmrh., hvað hann brá skjótt við, er till. okkar kom fram, þó að miklar misfellur hafi hlotizt af því, að hann hafði ekki samráð við útvegsmenn um löndunina. Það var sem sé auglýst upp úr kaffi á föstudag, að nú tækju síldarverksmiðjur ríkisins við síld í bing, einum farmi úr hverju skipi, og síðan er birt yfirlýsing um verðlækkun án samráðs við útvegsmenn. Því næst er reiknað með, að löndun hefjist af fullum krafti, en hið merkilega skeður, að enginn útvegsmaður vill láta aflann á hinu auglýsta verði. Þessu fer fram frá því á föstudagskvöld og þar til seint í gærkvöld, að tilkynning kemur um, að síldin verði tekin á 25 kr. í stað 22 kr. verðsins, og þá hófst löndun. Vegna hinnar óhóflegu lækkunar, sem upphaflega var auglýst á síldarverðinu, varð á þessu tímabili ekkert gagn að ráðstöfun ráðh. og stjórnar SR, og svo var komið í gærkvöld, að 90 skip biðu hér losunar með samtals um 70 þús. mál, eftir því sem útvarpið sagði, og þá tók ráðh. málið í sínar hendur á nýjan leik. Um verðið átti auðvitað þegar að hafa samráð við útvegsmenn, verðið getur verið svo lágt, að það sé sama og stjórnin segi, að síldveiðum skuli hætt. Menn sjá nú, hve útvegsmenn eru fúsir til að fara af stað, er verðið hefur verið hækkað um 3 krónur.

Hæsta verð, sem útvegsmenn hafa fengið fyrir síldina, komna um borð í flutningaskip hér, er 32 kr., en þegar síldin hefur verið flutt á bílum úr veiðiskipi í flutningaskip, hefur það aukið hraðann á losun þeirra veiðiskipa, og þau hafa fengið 30 kr. og 50 aura fyrir málið, eða orðið að borga 1 kr. og 50 aura pr. mál í flutningskostnað með bílunum. Og síðan var auglýst þriðja verðið á síld í bing, 22 kr. málið, eins og kunnugt er. kosti það 1 kr. og 50 aura að flytja síldina á bílum í flutningaskip, þá býst ég við, að það sé ekki dýrara að aka henni í bing, svo að verðið á henni kominni í bing og kominni í flutningaskip sé svipað, eða um 30 kr. og 50 aurar. Með 22 kr. verðinu tekur því stj. kr. 8,50 af hverju máli fyrir rýrnun í bing og flutningskostnað úr bing, eða 7 kr. fyrir rýrnun í bing, ef gert er ráð fyrir, að það kosti 1 kr. og 50 aura að flytja síldina úr bing, eins og það kostar að flytja hana í binginn. Það er álit margra útvegsmanna, að hér sé mjög ríflega í farið. Og það ber líka að athuga, að við að geyma síldina er hægt að gera nýja samninga við flutningaskip og hagstæðari, af því að vitað er um ákveðið magn fyrir hendi og stöðuga flutninga. Þannig er hægt að lækka flutningskostnaðinn allverulega. Ég er sannfærður um, að það má borga meira en 25 kr. fyrir síld í bing. Útvegsmenn hafa ná fengið verðið upp í það, en ég er sannfærður um, að það mætti fara hærra.

Þegar 22 kr. verðið var auglýst, var jafnframt auglýst klausa, sem stórspillti fyrir, og á ég við, að tekið var fram, að aðeins yrði veitt móttaka einum farmi úr hverju skipi í bing. Það var út af fyrir sig að þola þessa lækkun, en til þess að geta staðizt hana varð að vinna tapið upp með hiklausri og stöðugri löndun, en það var einmitt auglýst, að aðeins yrði tekið við einum farmi, og það reið alveg baggamuninn. Ég hef nú ekki séð tilkynninguna um hið nýja 25 kr. verð og veit því ekki, hvort þar er tekið fram, að ekki verði tekið á móti nema einum farmi frá hverju skipi.

Ef við drögum sögu þessa máls saman, þá ber mest á því, að stjórnin er á stöðugu undanhaldi. Fyrst eru það 15 þús. mál, þá einn farmur á skip á 22 kr. málið, þá 25 kr. málið og loks ótakmörkuð löndun. Þetta er kannske smekksatriði, en lítinn vott ber það um festu, framsýni og heildarsýn, og ég vil benda hæstv. sjútvmrh. á, að ef stjórnin hefði ákveðið 25 kr. verðið fyrir viku eða hálfum mánuði, þá hefðum við getað bjargað stórkostlegum verðmætum fram að þessu.

Það hefur verið gert mikið úr því, að síldin mundi skemmast í bing, og í því liggur viss hætta að geyma hana þannig, því er ekki að leyna. Það verður að fylgjast vel með henni, og áreiðanlega er æskilegast, að geymslan sé undir þaki, svo að síldin sé varin fyrir úrkomu, og má t. d. í því sambandi benda á flugskýlið, þar sem landbúnaðarsýningin var haldin. Þar er gólf allt steinsteypt, svo að hægt er að nota ámokstursvélar til að moka síldinni á bíla, þegar hún er flutt burtu, án þess að hætta sé á, að grjót komi upp í moksturstækin og fari síðan í vélar verksmiðjanna, en á því er hætta, ef ekki er steinsteypt gólf undir síldargeymslunni. En vitanlega verður stjórnin undir öllum kringumstæðum að láta fylgjast vel með því, hvernig um vöruna fer í geymslu, og ef útlit er á, að hún ætli að skemmast, verður stjórnin að gera sínar ráðstafanir, áður en það er orðið of seint. Hún yrði þá að fá veiðiskipin til flutninga eða fá fleiri flutningaskip, og ef um það er að ræða að stöðva síldveiðarnar um stund eða bjarga síldarmagni í bing frá skemmdum, þá er það vitanlega fjárhagslegt matsatriði, hvað skal gera. Ef mikið liggur undir skemmdum, er rétt að bjarga því fyrst. Ég tel, að unnt sé að forðast stórkostleg fjárhagsleg áföll, ef geymslustaðirnir eru vel valdir, en ef síldin fer að skemmast á annað borð, er hún mjög fljót að renna í sundur. Með því að geyma í bing aflast líka mjög þýðingarmikil reynsla. Ef hægt er að geyma síldina, er hægt að gera stórfelldar ráðstafanir án mikils tilkostnaðar. Ef við verðum svo lánsöm að fá síld á næstu vetrarvertíð, sem margir ætla, þá gæti komið til mála, ef vel tekst um geymsluna nú, að byrja á því að byggja þrær hér syðra, en sjá vitanlega um, að lýsið, sem rennur af síldinni, sé tekið upp og unnir úr því peningar. Hér er því um stórfellda tilraun að ræða og kannske nýjar leiðir. Og allt bendir til þess, að unnt sé að geyma síldina án stórvægilegs tjóns.

Ég vil svo að lokum benda á, að þegar allt í einu berst svo mikil veiði, að slíks eru fá eða engin dæmi og ekkert lát er á veiðinni, þá er það alveg óforsvaranlegt, að allar þær ráðstafanir, sem í slíku tilfelli þarf að gera, sé talið sjálfsagt að framkvæma einungis á ábyrgð útgerðarinnar, en ríkissjóður taki ekki neina ábyrgð á sig. Það ætti fremur að vera öfugt, þegar svona stendur á, því að það er útvegurinn, sem vinnur undirstöðustörfin, og öll vinna í landi og allur sá ágóði, sem þjóðinni hlotnast, veltur í þessu sambandi á því, að útgerðarmenn sjái sér fært að senda skip sín út á miðin. Og út frá þessu sjónarmiði er réttmætt, að ríkisstj. taki á sig ábyrgðina af því, sem gera þarf til þess að tryggja útgerðinni það, sem hún þarf til þess að geta gegnt skyldu sinni og sótt veiðina. Það hefur greinilega komið í ljós það princip ríkisstj. að láta útveginn bera alla áhættuna, og þegar loks að því kom, að ríkisstj. sá sig tilneydda að taka á sig nokkra ábyrgð, þá var kostnaðurinn svo ríflega áætlaður, að hún varð að leiðrétta sitt eigið mat um 3 kr. á hvert síldarmál, sem er hreint ekki lítill peningur. Ég vildi svo spyrja hæstv. fjmrh., hvernig því er háttað með þessa þriggja króna tilslökun, hvort hún er bundin við það, að enn þá sé aðeins tekinn einn farmur af hverju skipi, og hvort enn þá standi það fyrirheit, að útvegsmenn fái verðið hækkað, ef kostnaðurinn vegna aðgerða ríkisstj. verður minni en ríkisstj. hefur metið, og enn fremur, hvort ríkisstj. hafi ekki hugsað sér, þegar héðan verður um fasta og varanlega síldarflutninga að ræða, að reyna að fá lækkað flutningsgjald síldarinnar, sem er mjög hátt. Flutningsgjaldið var ákveðið svo hátt til þess að fá veiðiskipin sjálf til þess að flytja síldina, en fá þeirra bera meira en 1000 mál, en hins vegar, þegar flutt eru í einu 10, 12 og 14 þús. mál og jafnvel enn meira, þá sér hver maður, að flutningskostnaðurinn verður ekki eins mikill, svo að þarna mætti stórlækka kostnaðinn, enda er talið, að stóru flutningaskipin hafi góða þénustu af síldarflutningunum, en það var ekki meiningin að láta þau stórgræða á þeim tíma, sem verð síldarinnar er lækkað til sjómanna. Ég tel því, að hefði ríkisstj. gert skyldu sína í þessu efni, þá hefði verðið ekki þurft að lækka. Í þessari till. er meginatriðið það, að sem mestu síldarmagni verði komið á land með sem minnstum töfum, og hefur hún þegar að verulegu leyti náð tilgangi sínum með því að ýta við ríkisstj. til þess að að hafast eitthvað. Hins vegar tókust ríkisstj. framkvæmdirnar svo bögulega, að af þeim varð ekkert gagn fyrr en verðið hafði verið hækkað aftur. Enda þótt nokkur árangur hafi þegar náðst, tel ég rétt að samþykkja till., með því að hún miðar að því að nýta síldaraflann til hins ýtrasta, enda býst ég við því, að umr. um þessa till. muni verða — og það hafa þær raunar verið — til þess að gera ríkisstj. hugdjarfari í framtíðinni til þess að leysa þessi mál.