03.03.1948
Sameinað þing: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

125. mál, rafmagnsþörf austurhluta Rangárvallasýslu og Mýrdals

Flm. (Jón Gíslason) :

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 246, sem ég flyt hér ásamt hv. 1. þm. Rang., er um athugun á rafmagnsþörf fyrir austurhluta Rangárvallasýslu og Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. — Ástæðan fyrir því, að við berum till. fram, er m. a. sú, að í Vík í Mýrdal er mjög mikill skortur á rafmagni. Kauptúnið hefur farið ört vaxandi á síðari árum, og til þess liggur m. a. sú ástæða, að þar er starfrækt Loran-veðurathugunarstöðin, en við hana starfa 14 til 16 manns á fullum árslaunum. Auk þess hafa verið stofnsett þarna ýmis verkstæði, og þetta allt gerir það að verkum, að þörf kauptúnsins fyrir rafmagn hefur farið mjög vaxandi. Kauptúnið hefur notað ævagamla rafstöð, sem fyrir löngu er orðin of lítil til að fullnægja þörfum þess. En skammt frá Vík er lítil á með mikilli fallhæð og nokkuð jöfnu vatni, og til hennar hafa Víkurbúar löngum rennt hýru auga í þeirri von, að hún seinna mætti færa þeim ljós og hita, en þetta mundi aðeins nægja Víkurbúum og allra næstu bændabýlum, og þá virðist næst að líta eftir stórvirkjun og þá lengra frá. Er þá um tvennt að gera, annaðhvort að virkja Skógafoss eða fá leiðslu frá Sogsvirkjuninni í áframhaldi af þeirri leiðslu, sem væntanlega verður lögð austur í Hvolhrepp á Rangárvöllum, og yrði að því ráði hallazt, sem líklegt er, þá mundu margir fleiri aðilar en Víkurkauptún njóta góðs af því, þ. e. 4–5 hreppar með mjög góð ræktunarskilyrði í austurhluta Rangárvallasýslu og Mýrdalnum, og hafa bændur á þessum slóðum eins og annars staðar mjög mikla þörf fyrir að fá rafmagn til sinna afnota. Í þriðja lagi kemur þarna til Skógaskóli. Er ekki langt þangað til þessi skóli getur tekið til starfa, en rafmagnsþörf skólans er enn óleyst. Vitanlega má þó leysa úr rafmagnsþörf skólans með sérstakri virkjun frá smávatni, sem þar er rétt hjá, eða með mótor, en reynsla þeirra, sem framleiða rafmagn með mótor á þessum slóðum, er sú, að þetta verður nokkuð dýrt, þegar þarf að flytja olíuna á annað hundrað km leið.

Þetta þrennt liggur til grundvallar þessari þáltill. okkar, þ. e. hin aðkallandi þörf Víkurkauptúns fyrir rafmagn og þörf sveitanna á þessum slóðum, og virðist okkur því nauðsynlegt að fá úr því skorið sem fyrst, á hvern hátt eigi að leysa þessi mál sem hagkvæmast fyrir þessa aðila. Er þetta tilgangur þáltill. okkar. Vil ég vona, að hún fái góðar undirtektir hv. þm., og legg til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til fjvn.