17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3717)

186. mál, Skipanaust h/f í Reykjavík

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins óska upplýsinga um atriði, sem ég hef ekki komið auga á í grg., og það er um það, hvort þetta félag ætli að hafa með höndum aðeins byggingu og rekstur dráttarbrauta, eða hvort það einnig ætlar að hafa með höndum skipaviðgerðir og skipasmíðar. Og í sambandi við till. vildi ég vekja athygli á því, hvort ekki væri ástæða til, ef ábyrgðin væri veitt að láta þá fylgja einhver skilyrði um aðgang annarra að þessum dráttarbrautum, hvort sem um væri að ræða ríkisstofnanir, er eiga skip, eða einstaklinga og félög, sem hafa skiparekstur á hendi. Það kann að vera, hvað snertir leigu eftir dráttarbrautirnar, sem þetta félag kynni að lána, ef um skipaviðgerðir væri að ræða, að það félli undir hið almenna verðlagseftirlit, en þá vildi ég vekja athygli á því, hvort ekki væri ástæða til að setja einhver skilyrði um aðgang að dráttarbrautunum og gjald fyrir uppsátur þar. Það er vafalaust þörf fyrir þetta fyrirtæki og ástæða til að hlynna að því, að það komist upp.