24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (3724)

186. mál, Skipanaust h/f í Reykjavík

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ef gengið yrði frá afgreiðslu þessa máls nú, þá mundu fleiri fyrirtæki koma fram með svipaðar óskir, þ. e. a. s. þau, sem nýbyggingarráð mælti með, að fengju lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins og ríkisstj. ábyrgðist að útvega lán fyrir. Það er nú upplýst, að stofnlánadeildina vantar tilfinnanlega fé til þess að geta staðið við þessar skuldbindingar um lán til báta og frystihúsa. Ég tel, að ef þessi lánsheimild yrði afgr. nú, þá mundu önnur fyrirtæki koma á eftir, sem hafa fengið vilyrði fyrir lánum. Þau mundu koma með sömu tilmæli um ríkisábyrgð. Ef lengra yrði farið nú, mun ég flytja till. þess efnis, að hér gilti einu og sama fyrir alla þá aðila, sem vilyrði hafa fengið frá nýbyggingarráði, en hafa ekkert lán fengið. Ég skal ekki telja aðferð þá, sem þm. Barð. leggur til um afgreiðslu till., vera alls fjarri. En í þessu sambandi er ekki óeðlilegt, að samráð yrði haft við heilbrigðisstjórnina. Eins og hv. þm. vita, þá hefur verið erfitt um pláss fyrir geðveikt fólk. Úr þessu hefur að nokkru verið bætt með viðbótarbyggingu við Klepp. Ef þetta fyrirtæki yrði nú sett upp sama megin vogarins og Kleppur er, þá yrði að flytja Kleppsspítalann, enda liggur það í augum uppi, að ekki er hægt að bjóða taugaveikluðu og geðveiku fólki upp á að vera í grennd við sífelldan hávaða og hamarshögg. Ég beini því til hæstv. fjmrh., að ef nefnd hefur þetta mál til athugunar, þá hafi hún eitthvert samráð við heilbrigðisstjórnina varðandi þetta atriði.