22.10.1947
Sameinað þing: 12. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

32. mál, áfengi með niðursettu verði

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Það hefur verið hreyft nokkuð áfengismálunum bæði á þessu þingi og ekki síður í fyrra, þótt ekki sé hægt að segja, að sú málaleitun hafi gengið vel, með því að meginið af þeim málum og þeim till., sem hafa komið fram, hafa verið svæfðar af einhverjum dularfullum öflum. Nú aftur á móti koma til greina hin nýju þingsköp, og mun þetta vera fyrsta spurningin, sem hér er lögð fram í þessum efnum, og vænti ég, að það verði til þess að skýra þetta mál nokkru nánar. Ég hef leyft mér að spyrjast fyrir um það, hvaða trúnaðarstöður í þjóðfélaginu séu nú þannig settar, að þeir, sem þar hafa forustu, geti fengið áfengi með niðursettu verði. Mér er kunnugt um það, að í sumum tilfellum er áfengið sett niður um 90%. En mestu máli skiptir að vita, hvað lengi þessi siður hefur haldizt við og hvernig hann hefur komið, vegna þess að ég álít, að þetta þurfi að breytast, þessar undanþágur eigi að falla niður, og það er þá ekki alveg þýðingarlaust að vita, hvað lengi þessi siðvenja hefur haldizt. Það hefur verið nokkuð á lausu, hverjir í þessu landi hafa haft þessar undanþágur. Stundum hafa t. d. aðalforsetar þingsins haft þennan rétt, stundum allir forsetarnir og stundum enginn forseti. Ef þessi hlunnindi eiga að haldast, þá á að byggja það á skynsamlegum rökum, hvað mikið og hverjir þeirra hlunninda eiga að njóta, og mun ég víkja að því síðar, þegar hæstv. ráðh. hefur svarað. En hitt sýnist mér vera eðlilegt, að verði athugað, ef á að halda þeim reglum, að nokkrir menn fái undanþágu, að þá munu koma fleiri, sem telja sig eiga jafnan rétt í þessum efnum, og mun ég benda á það við síðari meðferð, hverjir það geta yfirleitt. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, fyrr en hæstv. ráðh. hefur svarað.