22.10.1947
Sameinað þing: 12. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

32. mál, áfengi með niðursettu verði

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Fjmrn. sendi þskj. 33 til forstjóra Áfengisverzlunar ríkisins með þeirri beiðni, að hann svaraði þeim spurningum, sem þar eru fram settar. Hann hefur nú svarað ráðuneytinu með bréfi, dags. 21, okt., er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi dags. 17. okt. s. l. hefur ráðun. sent oss fsp. Jónasar Jónssonar alþm. til ríkisstj. á þskj. nr. 33 (67. löggjafarþing) og mælzt til þess, að vér gefum ráðuneytinu upplýsingar, er mál þetta varðar.

Fyrsti liður fsp. er svolátandi: Hvaða trúnaðarstöðum í landinu fylgir réttur til að fá frá ríkinu áfengi til kaups með niðursettu verði?

Svar: Þennan rétt hafa nú:

1. Forseti Íslands.

2. Stjórnarráð Íslands, samkvæmt fyrirlagi einhvers af ráðherrunum.

3. Alþingi samkvæmt fyrirlagi forseta sameinaðs þings.

4. Ráðherrar.

5. Forsetar Alþingis.

6. Forstjóri Áfengisverzlunar ríkisins.

7. Erlendar sendisveitir og heimansendir konsúlar.

Annar liður fsp. hljóðar þannig: Hvenær hafa trúnaðarmenn þjóðfélagsins öðlazt þessi réttindi, hvaða stjórnarvöld veittu réttindin, og hvaða ár fékk hver einstök trúnaðarstaða sinn frumrétt?

Svar: Þegar núverandi forstjóri verzlunarinnar tók við starfi á miðju ári 1928, hafði forsætisráðherra haft þennan rétt og stjórnarráðið samkvæmt hans fyrirlagi. — Enn fremur Alþingi samkvæmt fyrirlagi forseta sameinaðs þings.

Í tíð þjóðstjórnarinnar, sem sat að völdum frá 1939–1942, var öllum ráðherrunum veittur réttur til þess að kaupa áfengi með niðursettu verði, en kaupin féllu í framkvæmdinni niður, meðan áfengissölu var hætt, frá því í júlímánuði 1941 til ársloka, er teknar voru upp undanþáguveitingar til kaupa á áfengi.

Á þessu tímabili öðluðust einnig deildaforsetar og síðar varaforsetar Alþ, rétt til kaupa á áfengi með niðursettu verði samkvæmt fyrirlagi þáverandi forseta sameinaðs þings. Með bréfi fjmrh., dags. 26. júní 1944, er mælt fyrir um, að forseti sameinaðs þings skuli einn af þingforsetum hafa þennan rétt. En með bréfi frá fjmrn., 29. jan. 1946, er mælt fyrir um, að selja megi forsetum Alþ. áfenga drykki án álagningar fyrir allt að 1000 krónum hverjum árlega. En þetta hefur í framkvæmdinni aðeins verið látið ná til forseta efri og neðri deildar Alþ.

Forstjóri Áfengisverzlunar ríkisins hlaut aðstöðu til þessara áfengiskaupa í júnímánuði 1944.

Þriðji liður fyrirspurnarinnar er þessi: Hvaða skilyrði eða takmarkanir eru settar hinum einstöku notendum þessara hlunninda?

Svar: Engin önnur en þau, er að framan greinir og vita að forsetum efri og neðri deildar Alþ. um magn það, er þeim er leyft að kaupa.

Síðasta lið fsp. teljum vér ekki í vorum verkahring að svara.“

Þetta er sem sé svar það, sem forstjóri áfengisverzlunarinnar hefur látið ráðuneytinu í té, og býst ég við, að engum sé þetta betur kunnugt en honum, og hef ég við þessar upplýsingar engu nýju að bæta.