29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3751)

900. mál, starfskerfi og rekstrargjöld ríkisins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þessi fsp. varðandi þál. frá 3. marz 1945 fjallar um athugun á starfskerfi og rekstrargjöldum ríkisins og framkvæmd þeirrar athugunar. Ég skal taka það fram, að síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum, hef ég ekki orðið var við, að neitt liggi fyrir í ráðuneytinu um þá rannsókn, sem hér er um að ræða. En í septembermánuði þessa árs fól fjmrn. í samráði við ríkisstj., eða öllu heldur fjmrh. í samráði við aðra ráðh., fimm mönnum, þ. e. a. s. þeim Magnúsi Gíslasyni, skrifstofustjóra fjmrn., Gunnlaugi Briem, skrifstofustjóra í atvmrn., Jónasi Guðmundssyni, skrifstofustjóra í félmrn., Magnúsi Björnssyni ríkisbókara og Birni Árnasyni aðalendurskoðanda, að rannsaka og gera tillögur til ríkisstj. um sparnað á rekstrinum, sérstaklega að athuga það, hversu fækka mætti nefndum, er starfa á vegum ríkisins, með afnámi þeirra eða samfærslu á störfum. Í útnefningarbréfi þessara manna er ráðgert, að rannsókn þessari verði lokið svo tímanlega, að hún geti komið að notum, áður en fjárlög eru samin fyrir árið 1948. Þetta kann nú að vísu ekki að taka yfir allt það svæði, sem þál, frá 3. marz 1945 gerir ráð fyrir, en það tekur þó til verulegs hluta af því athugunarsvæði. Það er ákaflega mikið verksvið, sem þál. frá 1945 fer fram á, og jafnvel það, sem farið er fram á í bréfi ráðuneytisins, er stórt verkefni, svo stórt, að ég býst við, að bæta þurfi við starfskröftum. Einkum og sér í lagi vill verða seinagangur á að fá svör og upplýsingar frá þeim, sem aðspurðir eiga að gefa upplýsingar, í því efni er oft mikill eftirrekstur. Hins vegar geri ég þó ráð fyrir, að viðurkennt verði, að hér hafi þó verið sýnd viðleitni á að fá þessa athugun í gang. En þegar svo er komizt að orði í fsp., að rekstrargjöld ríkisins eru einnig tekin með, er þess að gæta, að hv. Alþ. hefur þá athugun jafnan með höndum, þar eð það leggur sjálft grundvöllinn undir afgreiðslu fjárlaga, ekki aðeins varðandi fjárlagafrv., heldur einnig með samþykktum ýmissa lagaákvæða, sem aftur á móti binda fjárveitingavaldið. Það er m. ö. o. Alþ. sjálft, sem krefst fjárveitinganna, þær eru lítið á valdi þeirrar skrifstofu fjmrn., sem stendur fyrir greiðslum úr ríkissjóði. Hún er orðin nokkuð víðtæk sú löggjöf, sem viðtekin er þann veg, að stofnanir, stjórnir og framkvæmdamenn fara með lagaheimildir, sem krefjast fjárframlaga, og virðast ekki þurfa að hafa, né hafa heldur, önnur afskipti af fjármálastjórninni í þrengstu merkingu en leggja fram reikninga, þegar þeir eru fallnir í gjalddaga. Ég held, að þetta fyrirkomulag sé eitt af því, sem þarf að athuga og endurbæta, og ætla ég ekki að orðlengja það að öðru leyti.

Rétt nýverið var slík athugun, sem hér um ræðir, sett á stofn í einu af nágrannalöndum okkar, og þar var hafður sá háttur á að nota starfskrafta og þekkingu forstöðumanna hinna ýmsu stjórnardeilda, en sú athugun var einnig látin ná til rekstrarútgjalda bæjarfélaga, og er sannast sð segja brýn þörf á því — engu síður en um rekstrargjöld ríkisins — að láta athuga opinberan rekstur bæjarfélaga, þó að það hafi ekki verið tekið til meðferðar hér. Ég mun gera það, sem ég get, til að fá þessari athugun hraðað, og að sú leið var farin, að fela þetta embættismönnum, kemur af því, að þeir hafa mjög góða þekkingu á sínum stjórnardeildum, starfskerfi ríkisins og því skipulagi, sem við búum við, og ættu því að hafa góða yfirsýn yfir, hvar mætti lagfæra eitthvað, sem er sjálfsagt víða.