29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (3755)

900. mál, starfskerfi og rekstrargjöld ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur verið ásökuð fyrir aðgerðaleysi í því máli. sem hér um ræðir, en mér skilst, að ríkisstj. hafi gert dálítið. Hún hefur stytt vinnutímann hjá öllum starfsmönnum sínum með þeim afleiðingum, að bæta þurfti við nokkrum tugum nýrra starfsmanna, þó var ekki bætt svo mörgum við, að hafa þurfti áfram eftirvinnu og búa til sérstakan taxta yfir þá eftirvinnu, og líka hefur orðið að hækka suma menn fram yfir launalögin og lofa þeim eftirvinnu til að halda þeim í embættunum. Allt þetta hefur verið gert, síðan umrædd þáltill. var samþ., að vísu mest af næstsíðustu stjórn, en þó eitthvað af þeirri, sem nú situr. Hvort þetta miðar í þá átt, að árangur sá, er gert er ráð fyrir í till., náist, skal látið ósagt, en þetta hefur verið gert, og ég get ekki þakkað þetta.