05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

54. mál, viðlega báta um vertíðir

Fyrirspyrjandi (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Á vetrarþinginu 1945 bar 1. þm. S-M., núverandi hæstv. menntmrh. (EystJ), fram þáltill., svo hljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. í samráði við Fiskifélag Íslands að rannsaka, hverra ráðstafana muni þörf til þess að tryggja bátaflota landsmanna viðunandi aðstöðu til viðlegu um vertíðir og vermönnum viðunandi aðbúð.“ Till. þessi var samþ. með samhljóða atkv. 2. marz 1946. Svo hljóðandi grg. fylgdi till.:

„Á því hefur borið undanfarið, að skortur hefur verið viðhlítandi aðstöðu til viðlegu um vertíðir fyrir bátaflota landsmanna. Nú stendur fyrir dyrum nokkur aukning bátaflotans, og eru þeir bátar, sem menn nú kaupa, tvímælalaust flestir ætlaðir til útróðra á vetrum frá aðalstöðvum landsins. Er fyrirsjáanlegt, að vandkvæði í þessum efnum aukast verulega, nema leitað sé skipulegra úrræða til bóta. Ef takast á að bæta úr í tæka tíð, þarf vafalaust að byggja framkvæmdir á staðgóðri þekkingu á því, hvernig ástatt er, og þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru til framkvæmda. Hér kemur fleira en eitt til greina, hafnarbætur, verbúðabyggingar o. fl. Virðist flm. þörf á því, að áætlun sé gerð um þessi efni og að menn geri sér grein fyrir því þá um leið, hvaða framkvæmda í þessa átt sé að vænta af hendi einstakra héraða, einstakra manna eða félaga, enda kæmi þá í ljós, hvað hið opinbera yrði að aðhafast til þess að ná því marki, sem sett er í þáltill.

Flm. virðist eðlilegast, að Fiskifélagi Íslands væri falið að framkvæma nú þegar athugun á þessu máli og gera um það álit og tillögur, sem síðan kæmu til kasta ríkisstj. og Alþ. Það er hins vegar tæpast viðeigandi, að Alþ. feli Fiskifélagi Íslands með ályktun slíkt verkefni, og því er lagt til, að Alþ. feli ríkisstj. að fara með málið í samráði við Fiskifélag Íslands.

Hefur þá verið gerð grein fyrir þeirri hlið till., sem veit að aðstöðu til viðlegu fyrir bátaflotann, og skal vikið nokkuð að hinni hlið till., sem snýr að aðbúnaði vermanna.

Þeir, sem kunnugir eru í verstöðvum landsins, vita það, að aðbúnaður vermanna er víða alveg óviðunandi, húsakynni þröng og ill, samkomustaðir lélegir eða engir. Mun yfirleitt brýn nauðsyn á því, að úr verði bætt í þessum efnum. Þykir flm. ástæða til, að þetta sé athugað, um leið og gerð væri áætlun um þær framkvæmdir, sem gera þyrfti til þess að tryggja bátaflotanum viðlegupláss. Við þá athugun kæmi væntanlega í ljós, hvort þörf væri sérstakra afskipta af hálfu hins opinbera um þessa hlið málsins og þá hverra.“

Nú er liðið hátt á annað ár síðan þessi þáltill. var samþ., og á þeim tíma hefur bátafloti landsmanna stækkað stórkostlega, og er því augljóst, að hafi verið ástæða til að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun slíka sem þessa á þeim tíma, þá er sú ástæða margfalt brýnni nú. Hins vegar er okkur flm. ekki kunnugt, að þessi athugun hafi farið fram, og því er það, að við berum fram fsp. um þetta til hæstv. sjútvmrh. og væntum þess, að hann gefi upplýsingar um þetta. Hafi þessar athuganir og rannsóknir aldrei farið fram, finnst okkur ástæða til að minna. á þessa þál., sem enn er í fullu gildi, og jafnframt óskum við þess, að það dragist ekki lengi, að þessi athugun fari fram.

Ég hef haft sérstakar ástæður til að hafa nokkur kynni af mönnum, sem lágu við hér við Faxaflóa s. l. vertíð, og eftir þeim lýsingum, sem þeir gáfu mér af húsakynnum og aðbúnaði öllum sem viðlegumenn áttu við að búa, þá var það svo óálitlegt, að stórfurðulegt er, að þeir skyldu geta haldið út að vera þarna.

Minn tími er búinn, en ég vil að lokum taka það fram, að þó að hagur ríkissjóðs sé nú á þá lund, að ekki sé þess að vænta, að hann geti lagt stórfé í ýmiss konar nýmæli, þá þarf þó fyrst að gera þessar athuganir, og það er ekki fyrr en að þeim loknum, að til þess kæmi, að Alþ. taki ákvörðun um það, hvað ætti að sitja í fyrirrúmi. En athugun er nauðsynleg, áður en framkvæmdir byrja.