05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í D-deild Alþingistíðinda. (3761)

54. mál, viðlega báta um vertíðir

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég hef reynt að grafast fyrir það, hvað hafi verið gert út af þessari þál., og mér hefur verið tjáð, að tillögur eða umsagnir hafi verið afhentar fyrrv. atvmrh., en ég hef enn ekki getað fengið það fram í stjórnarráðinu til athugunar. Þó er það þannig eftir upplýsingum Fiskifélagsins, að þetta voru ekki lokafyrirmæli þeirra, heldur eitthvað, sem horfði til bráðra aðgerða hér suður með sjó. Annars hefur Fiskifélagið með höndum enn þá uppdrætti af verbúðum, sem þeir kalla, sem mér skilst, að sé sameiginleg íbúðarhús og áhalda- og veiðarfærageymsluhús, sem þeir ætla að hafa til taks og til þess að geta veitt aðstoð einum eða öðrum aðila, er hygðist koma upp verbúðum. Nú vil ég minnast á það, að síðan þessi þál. kom fram, hygg ég, að hafi verið gerð breyt. á hafnarl., þannig að nú njóta verbúðir sams konar tekna og önnur slík mannvirki, og er það gert til þess, að auðveldara sé að koma upp verbúðum, þar sem þeirra er þörf, og er þá vitanlega til ætlazt, að viðkomandi bæjarstjórnir eða hreppsnefndir taki að sér að koma þessu í verk, en njóti því ríflegri fjárframlaga úr ríkissjóði, sem annars er ákveðið hlutfall á þeim og þeim stað, í þeim hafnarmannvirkjaframkvæmdum.

Ég er sammála hv. flm. um það, að það er orðin stór þörf mikilla umbóta á aðbúnaði sjómanna. Er raunalegt til þess að vita, hversu mjög þeim aðbúnaði hrakar, um leið og landsmenn hafa yfirleitt komið sér upp betri húsakynnum. Sú afturför, sem hefur komizt á á þessu sviði, á ef til vill rót sína að rekja til nokkurs konar stóriðjubrags, sem í sumum verstöðvum er kominn á útgerðina. Ég man svo langt, að mótorbátaeigendur, þar sem ég ólst upp, skiptu á heimili sín aðkomumönnum, sem þeir þurftu að halda til sjósóknar, og jafnvel til landvinnu líka, og þessir menn bjuggu að öllu leyti við eins góð kjör og sama kost og heimilismenn sjálfir. Þetta á sér kannske einhvern stað enn þá, en þó ekki eins mikið og áður var. Það er líka fólkseklan á heimilunum — þjónustufólkseklan sem kemur talsvert í veg fyrir það nú, að hægt sé að hafa á þann hátt, sem óefað er bezti aðbúnaður, sem sjómenn geta haft, að þeir geti verið á góðum heimilum þann tíma, sem þeir eru við veiðar. En nú er að gera við því, sem er, að margir eiga þess ekki kost, og þess vegna hafa raddir komið fram og eru að koma fram um það að bæta úr á þessu sviði. Ég vil gjarnan leggja lið til þess, að úr þessu geti orðið bætt, eftir því sem föng eru til, og þegar Fiskifélagið hefur sínar till. tilbúnar, þá ætti að minni hyggju að reyna að ýta á það við bæjar- og sveitarstjórnaryfirvöld á þeim stöðum, er þetta mál snertir, að hagnýtt séu þau fríðindi í þessu efni, sem síðasta breyt. á hinum almennu hafnarl., eða réttara sagt hin almennu hafnarl., láta í té.

Fleira um þetta mál get ég því miður ekki sagt á þessari stundu. Ég viðurkenni þá þörf, sem hv. þm. lýsti, og tel, að athugun og undirbúningi að slíkum verbúðum þurfi að hraða.