05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3765)

901. mál, síldarverksmiðja á Norðausturlandi

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Eins og kunnugt er, var samþ. á síðasta þingi breyt. við lög frá 1942 um nýjar síldarverksmiðjur. Þessi breyt. gekk út á það að byggja síldarverksmiðju á Norðausturlandi sunnan Langaness, 5000 mála, og skyldi undirbúningi lokið á þessu ári, en framkvæmdir hafnar á árinu 1948. Mér og öðrum fyrirspyrjendum er ekki kunnugt um, að neitt hafi verið gert í þessu máli, þótt undarlegt megi virðast. Það hefði mátt ætla, að það, sem gerðist s. l. sumar, hvernig síldin hagaði sér, að síldveiðiflotinn þurfti að sækja mikið af þeirri síld, sem veiddist, austur fyrir Langanes, að það hefði verið nóg til þess að ýta undir þær aðgerðir, sem l. ætlast til, að framkvæmdar yrðu á þessu ári. Án þess að fara lengra út í það þá má hins vegar fullyrða, að það hefur valdið síldveiðiflotanum milljóna tjóni, að ekki er nú þegar til verksmiðja fyrir þetta svæði. Eitt af því marga, sem þarf að gera í sambandi við undirbúning þessa máls, er vitanlega staðarval fyrir verksmiðjuna. Það er vitað, að þeir staðir, sem liggja bezt við fyrir þetta síldveiðisvæði, hafa ekki upp á æskileg hafnarskilyrði eða hafnir að bjóða. Vil ég þar til nefna Bakkafjörð og Vopnafjörð. Það er líka vitað, að staður eins og Seyðisfjörður með sín ágætu hafnarskilyrði hlýtur að koma þar til greina, þrátt fyrir það, að hann liggi ekki vel við síldveiðisvæðinu sjálfu. Þess vegna er augljóst, að áður en þeir menn, sem áttu að athuga stað fyrir verksmiðjuna, gátu tekið sínar ákvarðanir, þá þurftu að fara fram rannsóknir á þeim stöðum, sem liggja bezt við síldveiðisvæðinu, hvað þyrfti að gera til þess að gera viðunandi aðstöðu á þeim stöðum og hvað slíkar aðgerðir mundu kosta. Þetta varð að gerast, áður en þeir menn, sem áttu að ákveða verksmiðjunni stað, gátu fellt rökstuddan úrskurð um, hvar hún ætti að vera. Þeir urðu að hafa þessar upplýsingar til þess að geta metið það, hvort verksmiðjuna á að byggja þar, sem hún, er bezt sett, eða hvort á að byggja hana á öðrum stað, þar sem hún verður mun ódýrari. Það má vel vera, að það verði ýmsar ástæður til þess að valda töfum á því, að þessi verksmiðja verði byggð, en slík rannsókn sem þessi og athuganir geta ekki kostað mikið fé. Það virðist því vera lítt skiljanlegt, að það skyldi ekki vera gert á s. l. sumri, og þess vegna töldum við fyrirspyrjendur ástæðu til að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvað ylli því, að þessar rannsóknir hafa ekki verið gerðar.