19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

902. mál, fjármál flugvallanna í Keflavík og Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Það er nú orðið nokkuð langt síðan þessi fyrirspurn kom fram, en ég óskaði eftir, að hún kæmi eigi til umr. fyrr en í dag. Ég veit, að það er allmikill áhugi meðal almennings fyrir því að fá að vita, hvernig gengur með rekstur flugvallanna í Reykjavík og í Keflavík. Það er uppi sú skoðun, að komið hafi til mála að leggja annan niður, og sýnist sitt hverjum, en það fer eftir fjárhagnum, hvernig snúizt verður í því. Ég hef það frá heimildum, sem eru ábyggilegar, að kostnaðurinn virðist vera kominn á tólftu milljón króna til flugvallanna, og er aðalkostnaðurinn við Reykjavíkurflugvöll, en annars er þetta ekki sundurliðað. — Ég hef orðið var við, að mönnum stendur stuggur af þessum mikla tilkostnaði. Mér hefur og skilizt, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki séð annað fært en að breyta frá þjóðnýtingu á Winstonhóteli á Reykjavíkurflugvelli og að komið hafi til mála að leigja það út. Nú hefur þetta hótel bætt úr hótelskorti í Reykjavík, og er ekki ósennilegt, að það komi til kasta Alþingis, hvort laga ætti þetta gistihús og reka það áfram eða rífa það. Ég hef enga trú á því, að Reykjavíkurbær geti rekið Reykjavíkurflugvöllinn, auk þess sem mikil hætta fylgir því að hafa flugvöll inni í bændum á ófriðartímum. Ég vil því, að það verði rannsakað til hlítar, hvort Reykjavík getur staðið undir flugvellinum eða ekki. Enn er tiltölulega lítið um viðhald þar, en það mun verða æði miklu meira seinna. Ég hef svo ekki miklu meira um þetta að segja, en bíð eftir svari hæstv. ríkisstj.