10.02.1948
Efri deild: 58. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

146. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1948

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér þykja þetta í meira lagi einkennileg vinnubrögð. Í fyrsta lagi er hér um stjfrv. að ræða, en þó fylgir enginn ráðh. því úr hlaði né gerir grein fyrir efni þess. Þetta er að vísu ekki nýtt hér, það hefur endurtekið sig hvað eftir annað, að ráðh. sýndu svo mikla fyrirlitningu á þeim málum, sem þeir eiga að flytja, að þeim hefur ekki dottið í hug að gera grein fyrir þeim hér í deildinni. Hvað eftir annað koma þeir hér með frumvörp og láta svo ekki sjá sig þegar þau eru tekin til umræðu. Varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, hefur reynslan þar að auki sýnt, eins og ég hef margsagt, að það er sama, þegar þing er byrjað að haustinu, hve gleiðgosalega talað er um, að fjárl. verði samþ. fyrir áramót, þau ganga alltaf langt fram á það ár, sem þau eiga að gilda fyrir. Nú ætlaðist þó hæstv. ríkisstj. til þess, að þingið hefði tímann fyrir sér frá 1. okt. til áramóta til að ganga frá fjárl. En þm. í Nd. þótti svo gaman að láta vera fjárlagalaust, að þeir færðu þetta aftur, svo að lengdist sá tími, sem fjárlagalaust er, og er það til skammar, hve þingið hefur dregizt. Og samkomudaginn vilja þeir hafa sunnudag, sjálfsagt til þess að þurfa ekki sérstaklega að greiða fyrir messugerð. Svo liggur þessu máli hér svo á, að engu líkara er en slíta eigi þingi á morgun, eins og engin leið eða frestur sé til að athuga það eins og önnur mál, heldur hespa það í gegn athugunarlaust og án þess að það gangi til n. Nýtt þing ætti að vísu að byrja 15. febr., en ekki fyrr. Þetta er í hæsta máta óverjandi, og vil ég ekki taka þátt í því. Ég tel, að þetta mál. eins og önnur, eigi að sæta þinglegri meðferð, og ætli það yrði ekki nóg að afgreiða það endanlega á föstudag eða laugardag, ætli það verði búið að slíta þingi þá? Ég skil ekki þessa meðferð. Hafi ríkisstj. verið ákaflega umhugað um að koma þessu máli áfram, þá hefði hún átt að koma því í gegnum Nd. án þess að víka liði á milli umræðna. Þetta er að öllu leyti langt fyrir neðan það, sem sæmilegt má teljast af ríkisstj. og Alþ.