12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3789)

903. mál, innflutningur nýrra ávaxta

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi lauk máli sínu á því, að hún vonaðist til, að ég gæfi greið svör og góð í þessu máli, en því miður verð ég að hryggja hana með því, að ekki er útlit fyrir, að hægt sé að veita gjaldeyri til kaupa á nýjum ávöxtum, nema þá tiltölulega lítið af því, sem sjálfsagt hefði þurft. Ég skal ganga inn á, að það má telja nauðsynlegt og er sjálfsagt vinsælt, eins og hún sagði, að flytja inn mikið af ávöxtum til að bæta úr vítamínskorti, þó að við höfum hingað til getað hjarað við sæmilega heilsu, án þess að mikið væri flutt inn af þessari vöru. En það er þó eins og hv. fyrirspyrjandi og aðrir þm. vita, að gjaldeyririnn nægir ekki fyrir brýnustu þörfum, og þar sem talið er, að aðrar þarfir séu brýnni en þessi, hljóta þær að ganga fyrir. Þess vegna hefur ekki verið gengið lengra í innflutningi ávaxta. Þó get ég skýrt frá því, að á árinu hafa verið veitt leyfi fyrir ávöxtum sem samsvarar fjórum milljónum króna, og er það einni milljón meira en í fyrra, þar af voru nýir ávextir fyrir á þriðju milljón. Vera má, að þessa sjái lítinn stað og ekki sjáist áþreifanlegur árangur, en gremja vegna aðgerðaleysis og tómlætis ríkisstj. sé mikil, eins og hv. fyrirspyrjandi komst að orði. En skoðun mín og viðskiptanefndar er sú, að svo æskilegt sem það væri að flytja inn ávexti í ár fyrir meira en 4 milljónir króna, eins og þegar er orðið, þá séu mjög litlar líkur til þess, að hægt sé að bæta við þann innflutning jólasendingu eða öðru, því miður. En opnist einhverjir möguleikar í þessu sambandi. þá verða þeir að sjálfsögðu notaðir, en ég verð að skýra frá málinu eins og það horfir nú.