12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (3791)

903. mál, innflutningur nýrra ávaxta

Fyrirspyrjandi (Katrín Thoroddsen) :

Herra forseti. Þó að svör hæstv. viðskmrh. væru hvorki góð né greið, þá þakka ég þó upplýsingar hans. Það er betra að jafnaði að vita sannleikann, í stað þess að gera sér tálvonir og lifa í þeirri von of lengi. Og vissulega kann ég að meta hinn góða vilja ráðh. og frómar óskir hans, þó að ég efist nú raunar um, að viljinn hafi verið eins mikill og æskilegt hefði verið. Ég held, að betur hefði mátt á þessum málum halda og að ýmislegt bendi til þess, að ekki sé vanþörf á að reka á eftir þál. Hæstv. ráðh. sagði, að Íslendingar hefðu getað hjarað fram að þessu án þess að lifa á ávöxtum, og þetta orðalag út af fyrir sig bendir til þess, að skilningurinn sé ekki of mikill. Íslendingar hafa hjarað, en hve margir hafa hrunið niður fyrr á öldum úr hungri og hallæri, og fyrir aðeins 100 árum var ungbarnadauðinn í landinu 30%. Þetta er ekkert til að keppa eftir. Annars býst ég við, að þetta orðalag hæstv. ráðh. hafi ekki verið eins illt og það hljómaði.

Fyrir nokkrum árum var skipuð n. til að athuga matvæli Íslendinga. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að mjög skorti á c-fjörefni í matvælum hér yfirleitt, og var þó góðæri þá. En sumarið í sumar var sérstaklega óhagstætt og rýrt á Suðurlandi. Það fengust engin ber, mjólk er af skornum skammti og allra sízt rík af c-fjörefni eftir slíkt sumar, þá er mikil vöntun á garðávöxtum og skyri, og ég ræð það af bragði smjörsins, að lítið sé nú af c-fjörefni í því, og einnig smjör er af skornum skammti.

Ég vil treysta því, að hægt sé að ráða fram úr þessum málum, því að það hlýtur að vera hægt að fá ávexti frá þeim þjóðum, sem við seljum saltfisk. Þessi þál. var samþ. einróma í janúar í fyrra, en viðskiptanefndin var ekki skipuð fyrr en seint í sumar, svo að ríkisstj. hefði getað beitt áhrifum sínum við n. og lagt nm. skyldur á herðar um þessi efni. Ríkisstj. má sín svo mikils, að hún getur leyst þetta mál, ef hún vill, og ég treysti því, að hún vilji það.