12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (3796)

904. mál, endurgreiðsla tolls af innfluttum timburhúsum

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þegar tollalögin voru sett, þá var ástandið þannig, að iðnaðarmenn höfðu ekki nóga atvinnu, og þótti því sjálfsagt að reyna að tryggja þeim vinnu með því að leggja 30% toll á hús, sem voru flutt inn, en ekki nema 8% á óunnið byggingarefni. En þegar lögin um aðstoð við byggingarframkvæmdir, l. nr. 44 frá 1946, voru sett, þá var ástandið orðið breytt. Þá höfðu iðnaðarmenn meira en nóg að gera, og er sagt, að sumir hefðu lagt svo mikið að sér, að þeir hefðu unnið meira en 24 tíma á sólarhring. Þá komu og allir gervismiðirnir, og höfðu einnig allir nóg að gera. Ástæðan fyrir þessum tollmismun var því ekki lengur til staðar, en húsnæðisþörfin á hinn bóginn orðin mjög mikil og brýn nauðsyn að bæta úr henni. Þá flutti fyrrv. landsk. þm., Sigurður Thoroddsen, brtt. um að undanþiggja innflutt timburhús alveg tolli. Þetta þótti of langt gengið, og flutti ég ásamt öðrum hv. þm. brtt. um, að tollur af innfluttum timburhúsum skyldi vera jafnhár tolli af óunnu timbri. Ástæðuna til tollmismunarins töldum við horfna og því ekki rétt að hafa þann mismun áfram í lögum. Með nafnakalli hér í d. var till. samþ., og með henni greiddi t. d. atkv. núverandi hæstv. fjmrh. Svo að segja allir hv. þm. voru raunar með till., en nokkrir á móti, aðeins vegna þess, að þeir vildu fella tollinn alveg niður. Þessi heimild um að lækka tollinn, sem sett var inn í lögin sem bráðabirgðaákvæði, var ekki notuð af fyrrv. hæstv. fjmrh., og bar hann því við, að ekki væri gott að reikna út mismuninn. Till. fór til fjvn., en kom þaðan ekki aftur, en ég hef fyrir satt, að núverandi hæstv. fjmrh. tæki vel í hana. Nú var það svo, að seint á árinu 1945 voru flutt inn nokkur hús og einnig fyrst á árinu 1947, og vildu innflytjendur þeirra húsa fá sömu tollaívilnun og þeir, sem fluttu inn húsin árið 1946, og var sagt, að ríkisstj. hefði tekið það mái til athugunar. Ég er ekkert á móti því, að þeir, sem fluttu inn hús fyrir 1. jan. 1946, fái þessar ívilnanir, en hins vegar höfðu þeir engin vilyrði fyrir tollaeftirgjöf. Hinir, sem fluttu inn hús árið 1946, eftir að heimildin hafði verið samþykkt, reiknuðu með því, að ríkisstj. notaði þessa heimild, og þeir verða fyrir beinum svikum, verði ráðherra nú ekki við þeirri sjálfsögðu kröfu að endurgreiða hann. Þeir, sem flytja inn hús á þessu ári, hafa heldur engin vilyrði, en hugsazt gat, að þeir byggjust einnig við að verða tollaeftirgjafar aðnjótandi. Síðan þetta þing byrjaði, hefur ekkert heyrzt um þessi mál, og við, sem viljum, að þingið standi við fyrri afstöðu sína, höfum því borið fram þessa fsp., og eftir svari hæstv. ráðh. fer, hvaða afstöðu maður tekur síðar til þessa máls, sem meiri hluti þm. hefur áður lýst stuðningi sínum við.