12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í D-deild Alþingistíðinda. (3797)

904. mál, endurgreiðsla tolls af innfluttum timburhúsum

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. þm. N-M., að þessi heimild var sett inn í lög nr. 44 frá 1946, en fyrrv. fjmrh. mun ekki hafa treyst sér til að nota hana, vegna þess að örðugt var að reikna út það, sem ætlazt var til. Þessi heimild til tollaeftirgjafar var og bundin við þá, sem fluttu inn hús á árinu 1946, og er næsta óviðfelldið, að þeir, sem fluttu inn fyrr eða síðar, fái ekki sömu eftirgjöf og menn séu þannig flokkaðir sundur. Þetta tvennt mun hafa verið tilefni til þess, að fyrirrennari minn hefur ekki notað þessa heimild. Tollstjóri hefur bréflega látið í ljós það álit, að fyrir þessari tollaívilnun sé ekki lagaheimild, sem verði framkvæmd, svo að samboðið sé Alþingi. Lagaheimild nær aðeins til þeirra, sem flytja inn hús árið 1946, en ef þeir einir fengju eftirgjöf, þá væri verið að mismuna mönnum á mjög óviðfelldinn hátt. Innflytjendur húsanna munu ekki geta lagt fram gögn um það, hve mikið efnið hefði kostað, og yrði þá, ef ætti að veita þeim tolleftirgjöf, að viðhafa slumpareikning, en það tel ég ekki gerlegt, enda gæti það og orðið til þess, að mönnum yrði mismunað. En hitt virðist mér, að þeir, sem fluttu inn sænsku húsin, fái þyngri toll en þeir, sem flytja inn óunnið byggingarefni, en þó hefur ráðuneytið nú ekki beitt tollahækkunum gagnvart þeim. Ég held því, að ef lausn á að fást í þessu máli, þá verði það að gerast með lagabreytingu, og tel tillögur tollstjóra, sem hann setur fram í bréfi frá 18. marz 1947, vera vel athugandi sem grundvöll fyrir þá menn, sem bera þetta mál sérstaklega fyrir brjósti. Ríkissjóður yrði samkvæmt till. tollstjóra að endurgreiða um 700–750 þús. kr. af tollinum, og tæpast getur fjmrh. gengið fram fyrir skjöldu um að rýra tekjur ríkissjóðs, þótt ég hins vegar viðurkenni, að þeir, sem flutt hafa inn tilbúin hús, hafa orðið fyrir of þungum tollamismun, og hafa margir, sem fluttu inn sænsku húsin, orðið fyrir vonbrigðum, því að þeir hafa þar búizt við hagkvæmari kaupum en raun hefur á orðið. Ég get svo látið staðar numið, að gefnum þessum upplýsingum, en lít svo á, að til tollaeftirgjafarinnar sé hvorki til framkvæmanleg né frambærileg heimild, og þarf því lagabreytingu til að leysa þetta mál.