10.02.1948
Efri deild: 58. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

146. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1948

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa, að viðkunnanlegra hefði verið að fylgja þessu frv. úr hlaði, en bæði er það, að hæstv. forsrh. er staddur erlendis, en undir hann heyrir málið, og svo er málið ákaflega einfalt. Nýtt þing á að hefjast 15. febr., og verður að vera búið að slíta þessu þingi fyrir þann tíma, en öllum er ljóst, að þess er enginn kostur, og síðan fyrir jól hafa allir búizt við, að setja þyrfti þessi lög. Það er rétt, að Nd. færði samkomudaginn aftur um 10 daga, þó þannig, að ríkisstj. getur kallað þingið saman áður, et henni sýnist svo. Mér hefur skilizt, að bændur utan af landi, sem sæti eiga í Nd., leggi töluverða áherzlu á, að þingið verði ekki kvatt saman fyrr en 10. okt., því að það henti þeim betur varðandi réttir og slátrun og fleiri annir að haustinu. Hitt er að vísu greinilegt, að ef líkur eru til, að unnt sé að ljúka þingi fyrir jól með því að byrja þinghald 10 dögum fyrr, eða 1. okt., þá er það á valdi ríkisstj. að kveðja það saman á þeim tíma, og ég tel víst, að hún geri það, ef hún telur það muna því, að með því móti verði unnt að ljúka þingi fyrir jól. Hitt er eðlilegt, að þm., sem jafnframt eru bændur, vilji vera heima yfir mesta annatíma haustsins, ef það er ekki talið óheppilegt fyrir þinghaldið, og er engin ástæða til þess fyrir bæjarþm. að fjandskapast við þá hugmynd.

Ég held, að rétt sé, að málið gangi til allshn., því að nægur tími er samt til að afgreiða það fyrir 15. febr., og ég geri því að till. minni, að því verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.

Hv. 2. þm. N-M. var með aðfinningar í sambandi við það, að ríkisstj. fylgdi ekki frv. sínum hér úr hlaði, en ég held, að það sé ekki rétt nema um þau frv., sem borin hafa verið fram í Nd. Hitt veit hann sem mér eldri þm., að það er ákaflega tvíbent með það, hvort frv. er fylgt úr hlaði í seinni d. eða ekki. Það er aftur verra, þegar ekki er gerð grein fyrir frv., þegar þau koma fram í fyrri d. eða eru borin fram í fyrsta skipti, eins og henti mig hér áðan, þegar frv. til l. um ákvörðun fésekta var tekið fyrir, en þá var ég bundinn við annað mál í Nd., og bið ég hv. dm. hér velvirðingar á þessu. Ég játa, að það á að gera grein fyrir málum, sem koma fram, annað á ekki að eiga sér stað.