19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (3803)

81. mál, opinberir starfsmenn

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Í forföllum hæstv. dómsmrh. tók ég að mér að svara fyrir hans hönd þessari fsp., eins og hún er á þskj. 103. Svarið hljóðar á þessa leið: „Með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. jan. 1945, var Gunnari Thoroddsen falið að semja frv. um opinbera starfsmenn og þess óskað, að frv. bærist það tímanlega í hendur ráðuneytisins, að hægt væri að leggja það fram haustið 1945, en það hefur enn ekki borizt. Í sambandi við fsp. get ég upplýst það, að undanfarið hefur verið unnið að samningu frv., en vegna anna og skorts á gögnum hefur hann enn ekki getað lokið því. Hann vonast þó til að geta skilað því til ráðuneytisins um næstu mánaðamót“.

Þetta er það, sem fyrir liggur frá hálfu hæstv. dómsmrh. í þessu máli. Viðvíkjandi reglugerð, sem hv. þm. Barð. minntist á í lok ræðu sinnar, þá vil ég ekki að svo komnu máli gefa ákveðið svar um það atriði. Ég tel heppilegt, að stjórnin og fjvn. eigi nokkrar viðræður um þetta. Ef ekki er hægt að fá vissu fyrir því, að fyrirhuguð löggjöf komist í kring á þessu þingi, þá er ég sammála hv. þm. Barð. um það, að reglugerð sú, sem hann minntist á, þurfi að athugast. Væri í sjálfu sér rétt, að stjórnin og fjvn. hefðu þar um samstarf.