21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3816)

119. mál, áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa ýtarlegu skýrslu, sem hann hefur gefið.

Mér skilst af því, sem fram kom í skýrslu hæstv. ráðh., að það sé ýmislegt, sem bendi til þess, að fært verði að ráðast í byggingu áburðarverksmiðju hér með góðum árangri. En þetta er það umfangsmikið og dýrt, að sjálfsagt er að ráðast ekki í það, nema allt verði tekið til greina, sem þarf í þessu sambandi. Þegar byggt er fyrir tugi milljóna, þarf að gera sér fulla grein fyrir því, að verksmiðjan þarf að framleiða alhliða áburð, því að landsmenn geta ekki orðið sjálfum sér nógir, ef þeir eiga aðeins verksmiðju, sem framleiðir eina tegund áburðar.

Það er vitanlega leiðinlegt að vita það, að við þurfum samt að bíða, þangað til Sogsvirkjunin nýja er komin í framkvæmd, en það verður, eftir því sem ég bezt veit, ekki fyrr en árið 1951 í fyrsta lagi, og er óvíst, að henni verði lokið þá. Þá eru það enn 3–4 ár, sem bændur verða að bíða eftir að fá nægilegan áburð, en eins og ég sagði, er betra að bíða og verja tímanum í rannsóknir og undirbúning. Mér skilst, eftir því sem fram er komið af reynslu og rannsóknum undanfarinna ára, að við megum vera þakklátir fyrir að hafa ekki byrjað verksmiðjubygginguna 1944, þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós, að verksmiðja með því sniði, sem þá var hugsað, hefði ekki reynzt vel eða fullnægt áburðarþörf landsmanna.

Ég tel mikilsvert, að þetta mál skuli vera lifandi og í undirbúningi, og vænti ég því, að úr framkvæmdum megi verða, þegar heppilegt þykir.