21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (3824)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort þessari fsp. er beint til atvmrh. eða fjmrh., eða ef til vill til okkar beggja. Hins vegar munum við báðir svara því, sem við álítum hér við eiga.

Ég skal geta þess, að fsp. sjálf á þskj. 211 er ekki rétt stíluð. Þar stendur: „Hver er orsök þess, að ekki hefur verið greitt til Búnaðarbankans lögboðið framlag“ o. s. frv. Hér er ekki um framlag að ræða, heldur lánsútvegun. Samkvæmt þessum sérstöku l. er um tvenn framlög að ræða, þ. e. samkv. 4. gr. framlag til landnáms, 2,5 millj. kr. á ári næstu 10 ár, og samkv. 13. gr. framlag til byggingarsjóðs, sem nemur 2,5 millj. kr. í 10 ár, m. ö. o. 5 millj. kr. á ári. Bæði þessi framlög hafa verið greidd á árinu, eins og l. standa til, greidd með jöfnum greiðslum mánaðarlega frá byrjun árs til enda. Hitt er annað mál, að ekki hefur enn þá tekizt að útvega sjóðnum það lán, sem hér um ræðir, og er það ekki af því, að ríkisstj. hafi ekki haft viðburði til þeirra hluta. Ég hef iðulega og ýtarlega rætt um þetta við hæstv. fjmrh. og veit, að hann hefur fullan vilja og skilning á að leysa þetta mál. En það eru til hlutir, einir og aðrir, sem eru óleysanlegir. Það er t. d. löggjöf, heimildir og allt að því skylda sums staðar, sem undanfarin ár hefur verið lögð á ríkisstj. um að útvega lán — milljónatuga og hundruð milljóna bæði lán og ábyrgðir, sem lána á samkv. l. í framkvæmdir. En það hefur sýnt sig, að það er komið þannig fjármálum þessarar þjóðar, bæði banka, einstakra sjóða og ríkisins sjálfs, að það getur engin ríkisstj. útvegað öll þessi lán. Það má alltaf deila um það, hvort meiri áherzlu eigi að leggja á þessa lánsútvegun eða aðra, og ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé eitt af þeim lánum, sem mesta nauðsyn beri til að útvega. En ef málið liggur þannig fyrir, og um það getur hæstv. fjmrh. upplýst, að ríkisstj. telur ómögulegt að útvega lán, þá verður þingið sjálft að hjálpa til að leysa þetta mál. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég legg mjög mikla áherzlu á, að þetta mál verði leyst, og ég hygg, að eins sé um hæstv. fjmrh., og við munum halda áfram, eins og við höfum gert þetta ár, að reyna að leysa þetta mál, þangað til það annaðhvort tekst eða við gefumst upp við það. En það er ekki hægt að dæma, hvorki ríkisstj. né aðra, til þess að gera þá hluti, sem eru óframkvæmanlegir, og það er alveg efalaust, að það eru svo miklar kvaðir og skyldur lagðar á herðar ríkisstj. um að útvega lán til hins og annars, að það er óhætt að segja, að það er óframkvæmanlegt að útvega öll þau lán. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, þá legg ég mikla áherzlu á það, að lánið geti orðið útvegað, og mun, meðan ég er í ríkisstj., gera það, sem mér er unnt, til þess að það megi verða.