22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (3832)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál var hér til umr. í gær, og liggur það fyrir af upplýsingum hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefur ekki getað aflað nægilegs fjár handa lánastofnunum landbúnaðarins. Hæstv. landbrh. benti á, að ríkissjóður væri stórskuldugur og enn fremur það, sem ekki er betra, að ríkisstofnanir væru einnig stórskuldugar. Hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. væri nú að vinna að því að afla fjár í þessu skyni, en gat þess einnig, að hann mundi þiggja hjálp þm., ef þeir vildu aðstoða sig við það. Ég leyfi mér því að koma fram með bendingu, sem kemur fram í tillöguformi í kvöld eða fyrramálið, um það, hvernig ríkissjóður geti aflað sér þeirra 15 milljóna, sem hann vantar handa lánastofnunum landbúnaðarins. Það má vera, að þessi leið reynist ekki nógu greið eða eins góð og ég álít, en þá er það annarra þm. að benda á nýjar leiðir. Sú bending, sem ég kem fram með varðandi byggingarsjóð bænda, er sú, að ríkisstj. afli sér heimildar til að nota byggingarsjóð Skálholtsskóla í þessu skyni, en það mun vera allmikil fjárupphæð. Ég vil benda á, að þessi skólastofnun mun verða nokkuð dýr. Aðalbyggingin mun kosta um 5 millj. kr., og þá er eftir að rækta tún og garða, reisa peningshús og kennarabústaði og leggja rafmagns- og vatnsleiðslur. Með nauðsynlegum bústofni yrði kostnaðurinn varla innan við 10 millj. kr., sem ríkissjóður yrði á næstu árum að greiða eða taka lán til. Það mætti ef til vill sýnast ósanngirni að vilja stöðva skólabygginguna, en ástandið er nú þannig, að bændur finna sárar til skorts á lánsfé heldur en skorts á skólum, því þó að báðir þeir bændaskólar, sem nú starfa, séu ágætir og hafi beztu starfskröftum á að skipa, þá komu aðeins 9 nemendur í 1. bekk í hvorum skóla í haust. Ef skólarnir hefðu verið þrír, hefðu aðeins sex nýsveinar komið í hvern skóla. Eins og ég sagði, er ekkert út á bændaskólana að setja, en bændur finna bara ekki hvöt hjá sér til að senda syni sína í þá. Legg ég því til, að byggingarsjóður Skálholtsskóla verði tekinn til fyrrgreindra nota.