22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (3833)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki tími til að hrekja hér allar þær órökstuddu fullyrðingar, sem hæstv. landbrh. kom fram með í umr. í gær.

En vegna fullyrðingar hans um það, að ég sem form. fjvn. hefði lítið vitað, hvað ég fór með, skal ég geta þess, að ég sagði tekjur ríkissjóðs orðnar 206 milljónir króna, en þær reyndust samkv. skjölum ráðuneytisins 206518767 kr. Gjöldin eru hins vegar 175584135 kr., og hef ég því heldur vantalið, þar sem ég taldi aðeins í milljónum. Vænti ég þess, að hæstv. landbrh. hafi eins góðan aðgang og ég að skjölum, sem þetta sýna. Rekstrarafkoma ríkissjóðs er því með bezta móti og hefur raunar aldrei verið svo góð. Ef komið er að skuldunum, þá blandaði hæstv. ráðh. saman skuldum ríkissjóðs og ríkisstofnana og gleymdi alveg að telja eignirnar, sem eru þó um 150 milljónir króna, svo að fullyrðingar hæstv. ráðh. um fjárhagsafkomu ríkissjóðs eru hreinustu blekkingar. Hitt er svo annað mál, og má ekki blanda því saman, þó að á ríkissjóði hvíli lausaskuldir. Ríkissjóður hefur og orðið að greiða um 6 milljónir til strandferðaskipanna, sem hann hafði heimild til að fá að láni, og enn fremur 4 millj. kr. til ríkisstofnana. Hæstv. landbrh. hefur sjálfur greitt stórar upphæðir úr ríkissjóði í ríkisfyrirtæki, m. a. til að kaupa Akur, en þessi sífelldi áróður hér á þingi og í blöðum Framsfl. um, að fjármál ríkisins séu í öngþveiti vegna aðgerða sjálfstæðismanna, er óþolandi og nauðsynlegt, að honum sé mótmælt. Það er nú komið fram, sem ég sagði í fyrra, að hagur ríkissjóðs mundi verða blómlegur á þessu ári, en það, að slíkt gat orðið, er að þakka undirbúningsstarfi fyrrv. ríkisstj. undir forustu Sjálfstfl.