22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (3836)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. hefur gefið hér yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstj. um afstöðu hennar til fjárhagsaðstæðna þjóðarinnar, og þær umr., sem hér hafa farið fram, virðast gefa ærið tilefni til þess, að fjárhagskerfi þjóðarinnar sé tekið til athugunar. Nú er hæstv. ríkisstj. að gera þær ráðstafanir, sem í hennar valdi eru, til að gera samdrátt á lánum í þágu atvinnuveganna, en virðist um leið ætla að reyna að tryggja auðmönnum landsins töglin og haglirnar í allri lánastarfsemi til þess eins, að þeir ríku geti tekið enn hærri vexti af lánum. Að þessu vinnur hæstv. ríkisstj. nú ötullega. Auðmönnunum er gert sem auðveldast fyrir að sölsa undir sig fasteignir fólks og koma fé sínu fyrir á annan tryggan hátt. Og nú er hæstv. atvmrh. að reyna að afsaka, að erfitt sé um lán, þegar ríkisstj. hæstv. er búin að gera allt, sem í hennar valdi hefur staðið, til að loka lánamarkaðinum, en sendir þjóðina í hendur vaxtaokraranna. Nei, það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðh. að ætla sér að afsaka verk, sem búið er að vinna með þessum hætti. Það er vitanlega seðlabanki Landsbankans, sem ákveður, hvernig er um vik á lánamarkaðinum. Hæstv. atvmrh. segir: „Lánamarkaðurinn er lokaður, og ríkisstj. hefur orðið að heyja harðvítuga baráttu við hann.“ Hvað á hæstv. ráðh. við með þessu? Því má ekki segja þjóðinni sannleikann? Nei, hér er orsökin aðeins sú, að yfir fjármálalífi þjóðarinnar ráða menn, sem vitlaust hugsa. Hér er um að ræða blinda menn, sem skilja ekki og kunna ekki á þá vél, sem stjórna á fjármálalífinu í landinu. Illa mun jafnan farnast því skipi, þar sem vélstjórinn kann ekki handbrögð til þess að láta vélar skútunnar ganga á skynsamlegan hátt. Slíkur vélstjóri er til lítils gagns. Það er landsbankavaldið, sem telur sig hafa öll ráð í hendi sér yfir atvinnulífi Íslendinga, og sú gamaldags fjármálapólitík, sem Landsbankinn rekur, hefur verið staðfest með l. um fjárhagsráð. En í nútíma þjóðlífi dugar hvergi gamaldags fjármálæða bankapólitík, og hæstv. ríkisstj. hefur þó, sem hið æðsta framkvæmdavald, tekið að sér með l. um fjárhagsráð að reka slíka pólitík. Ég hef áður bent á, að Alþ. og ríkisstj. eiga að ráða hér öllu um, hvernig ástandið í fjármálalífinu verður, ráða, hvernig lánamarkaðurinn er á hverjum tíma. Alþ. á að ráða yfir seðlabanka þjóðbankans, og bankinn á að ráðstafa að miklu leyti fé sínu eftir því, sem Alþ. og ríkisstj. ákveða á hverjum tíma. Er hæstv. atvmrh. kvartar yfir því, að erfitt sé um vik á lánamarkaðinum, þá getur hann kennt þar um hæfileikaleysi þeirra manna, sem Alþ. hefur falið að fara með völd yfir fjármálalífi landsmanna. Það eru þeir embættismenn, sem eiga hér sök, og það er hart af ríkisstj. að koma fram og betla í Landsbankanum og segja svo frá því, að ekkert lán fáist. Nei, það á ekki að fara í kringum þetta, hæstv. atvmrh., eins og köttur í kringum heitan graut. Ástæðan er sú, að nokkrir háttsettir embættismenn, sem settir hafa verið yfir fjármálalíf þjóðarinnar, spyrna við fæti og skilja ekki hlutverk sitt, að þeir eigi að vera og standa eins og Alþ. hefur fyrirskipað. Þetta er ástæðan fyrir erfiðleikum ríkisstj., er Landsbankinn neitar um lán til ýmissa framkvæmda.