22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3843)

906. mál, framlag til Ræktunarsjóðs Íslands

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) Herra forseti. Lögin um ræktunarsjóð gera ráð fyrir, að sjóðurinn fái hálfrar milljón kr. framlag úr ríkissjóði í 10 ár. Nú er svo málum háttað, að fé því, sem ræktunarsjóður ráðstafar, er ráðstafað í októbermánuði ár hvert. Á áliðnu hausti var sjóðurinn fjárvana. Hann fékk ekki þessa hálfu milljón, sem hans var samkv. lögum. Þá var spurzt fyrir, hverju slíkur dráttur á greiðslu til sjóðsins sætti. Síðar hefur rætzt úr þessu, en er fsp. þessi var lögð fram hér á Alþ., hafði ekki fengist nein skýring á þessu. Framan af þingtímanum hafði ekki rætzt úr þessu, og þess vegna kom fsp. þessi fram. En í byrjun þessa árs var upphæðin greidd, og er því fsp. raunverulega úr sögunni. En ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að útlánum úr sjóðnum er svo háttað, að þau fara fram að haustinu, og vonast ég til, að óeðlilegur dráttur verði ekki í framtíðinni á greiðslum ríkissjóðs til sjóðsins.