22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (3847)

907. mál, lánsfjáröflun til Ræktunarsjóðs Íslands

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Svo bar til, þegar l. um ræktunarsjóð voru til umr. hér á Alþ., að þá strandaði málið vegna þess, að stofnfé það, sem ræktunarsjóðnum var ætlað, reyndist of lítið. Er frv. kom aftur fram, þá lofaði ríkisstj. því, að ákvæði það, sem felst í 8. gr. l., yrði framkvæmt. Margir þm. hafa skilið ákvæði 8. gr. sem ákveðið loforð: Hæstv. forseti Sþ. hefur m. a. skilið þetta ákvæði þannig, að hæstv. ríkisstj. hafi lofað að útvega þær 10 millj. kr., sem þar um getur. Svo er ástatt með það fé, sem ríkisstj. er ætlað að veita til byggingarsjóða, að það fé getur ríkisstj. tekið úr ríkissjóði, en það fé, sem henni ber að veita ti1 Ræktunarsjóðs Íslands, er ríkissjóði ætlað að fá að láni. Hér er því hæstv. ríkisstj. ætlað að útvega lán, en ef hún getur það ekki, eins og hæstv. atvmrh. drap á, þá er ekki svo mikið við því að segja. Þetta er því munurinn, að annars vegar er um framlag úr ríkissjóði að ræða, en hins vegar er ríkisstj. ætlað að útvega lán í banka. Hæstv. ríkisstj. hefur oft útvegað lán til ýmissa fyrirtækja, t. d. ríkisverksmiðjanna. Á svipaðan hátt hefði hún getað afgr. þetta mál. Væri nú fróðlegt að fá að heyra, hvernig hæstv. stjórn ætlar að ráða bót á þessu. Lánbeiðnir úr ræktunarsjóði eru svo margar, að brýna nauðsyn ber til þess, að ráðin sé bót á þessu og fé fáist til sjóðsins. Það er því nauðsynlegt, að tekið sé 10 milljón kr. lán, sem renni til ræktunarsjóðs, svo að hann geti fullnægt hlutverki sínu. Mig langar því að vita, hvað gert hefur verið í þessu og hvað hæstv. ríkisstj. hyggst að gera til þess að hrinda í framkvæmd 8. gr. laga nr. 66 1947. Um það langar mig að heyra frá hæstv. ráðh.