22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3849)

907. mál, lánsfjáröflun til Ræktunarsjóðs Íslands

Gísli Jónsson:

Það er gott, að hæstv. fjmrh. hefur svarað þessari fsp. Þessar upplýsingar hefðu betur verið gefnar fyrr, því að þá hefði mátt spara þær hnútur, sem ræða hæstv. atvmrh. gaf tilefni til. Kjarni þessa máls eru lánsfjárerfiðleikarnir. Í því sambandi vildi ég spyrja, hvernig stendur á því, að seðlaveltan, sem þegar hún var hæst komst upp í 181 millj. kr., var nú nýlega, þegar seðlarnir voru innkallaðir, aðeins 107 millj. kr. Hér er um 70 millj. að ræða, sem dregnar hafa verið inn, og þó hefur athafnalíf aldrei verið meira en á árinu 1947. Hver er þá ástæðan til þessa? Er hún sú, að þeir, sem þessu ráða, álíta, að ekki þurfi meira en 107 millj. kr.? Ef seðlabankinn liggur með 70 millj. kr., gætu ýmsir fengið lán, ef það væri sett í umferð.

Samkvæmt 3. gr. l. um Landsbankann ber bankanum að sjá atvinnuvegunum fyrir fjármagni. Um það, hvernig það skuli gert og gegn hvaða tryggingum, eru skýrar reglur og ráðh. fylgist með þessum málum. Hvernig er þessu varið nú? Er gefið út eins mikið af seðlum og heimilt er, eða er dregið of mikið inn? Ef of mikið er dregið inn, liggur þá ekki á bak við sú skoðun, að það sé hollt til þess að stöðva útþensluna? Eða er það svo, að tryggingarnar bak við leyfi ekki meiri veltu? Ef svo er, þarf að taka kerfið til athugunar og rannsaka, hvort ekki sé rétt að binda seðlaveituna við útflutningsmagn og þau verðmæti sem þjóðin á í landinu. Þá þyrfti ráðh. ekki að ganga bónarveg til bankanna.

Annars er ekki við góðu að búast þegar Alþ. hefur sett vaxtafótinn niður í 1½%. Búnaðarbankinn hefur t. d. lánað fé sitt í brask, verzlun, útveg og iðnað og byggt stóra höll í Reykjavík í stað þess að hjálpa bændum að byggja yfir sig.