04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (3862)

141. mál, þjóðleikhúsið

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir, að eitthvað er bogið við þessa n., og mun hún eiga eftir að kosta meira en hér hefur komið fram, enda lagt grundvöllinn að þeirri löggjöf, sem mun eiga eftir að kosta þjóðina stórfé. Þá er það og eftirtektarverð ráðsmennska, að í staðinn fyrir að Alþingi hafði frá 1923 fengið menn til að vinna mikið starf í þjóðleikhúsnefnd fyrir ekki neitt, þá kemur sú nýja framkvæmd hjá hæstv. fyrrv. menntmrh., að ekkert er hægt að gera án þess að fá þar til sérstaka peninga, og vildi ég fara nokkrum orðum um nefndarstofnun hans, sem virðist hafa verið nokkuð fljóthugsuð. Þegar n. var stofnuð, var þjóðleikhúsið ófullgert og hafði tafizt á stríðsárunum að halda áfram smíði þess vegna efnisskorts, og þegar framkvæmdir voru hafnar að nýju, sótti enn í sama horfið, og er nú fullkomlega óvíst, hvenær húsið verður fullbúið. Við í byggingarnefnd fengum í fyrra leyfi fyrir efni, en þá voru engir peningar til og hafa enn ekki fengizt, þannig að samningar um efniskaup í útlöndum eru nú fallnir. Það er því furðulegt, að ríkisstj. skyldi fara að skipa n. til að undirbúa rekstur hússins, meðan það var með öllu ófullgert, og gæti svo farið, að það yrði svo í næstu 10 ár. Hæstv. menntmrh. gat þess, að ferðakostnaður n. hefði orðið 16.380.00 kr. Ég vildi nú gjarnan fá það upplýst hjá hæstv. ráðh., hvað ferð eða ferðir voru farnar, hver fór og hvaða árangur hefur orðið af ferðalaginu. Þessi n. byrjaði starf sitt á því að kaupa skrifstofuhúsgögn yfir 5.500.00 kr., og yfirleitt báru aðgerðir n. vott um mikið yfirlæti, en mannavalið var þannig, að sá eini af nm., sem nokkuð hafði ferðazt, var svo ókunnugur þjóðleikhúsbyggingunni, að hann hafði skrifað í grein um húsið, að sá vankantur væri á því, að þegar setið væri á svölunum, þá sæist ekki á senuna, heldur aðeins rendur af senunni. Þegar svo var farið með þennan ágæta rithöfund upp á svalirnar, sá hann ekki einungis senurendurnar, heldur alla senuna og hálfan bakvegginn. Annar nm. sagðist aldrei hafa séð annað leikhús en Iðnó, og undraðist hann ímyndunarafl ríkisstj. að setja sig í slíka n. Það undarlegasta er þó það, að upp úr þessari n. hefur sprottið frv., sem á eftir að gera marga íslenzka fjmrh. gráhærða og láta þá útheila mörgum svitadropum, því að upp úr aðgerðum þessarar n. hefur það verið lögfest að hafa tugi fastra starfsmanna við þjóðleikhúsið, en til þess hafa hvorki Bretar né Bandaríkjamenn treyst sér né heldur Norðurlandaþjóðirnar, nema Danir og stynja nú sáran undir því. En þetta frv., sem lögfest var í fyrra um þjóðleikhúsið, er það vitlausasta og skaðlegasta frv., sem hér hefur verið samþ., og á eftir að verða núv. hæstv. menntmrh. og öllum, sem að því standa, til margfaldrar háðungar.