25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í D-deild Alþingistíðinda. (3868)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Ég hef leyft mér að gera fyrirspurn varðandi ríkisreikningana 1944, 1945 og 1946, og er hún á þskj. 300.

Ég hef ekki orðið var við þessa reikninga og þætti því vænt um að fá upplýsingar um það hjá fjmrh., hvernig á þessum drætti stendur, hvort það er af völdum vöntunar á starfsfólki, húsnæðisleysi eða öðrum ástæðum. Það er dálítið einkennilegt, að einstaklingar og félög skuli þurfa að ljúka reikningsskilum á mánuði, eða í síðasta lagi áður en fyrsta fjórðungi ársins á eftir reikningsárinu er lokið, en ríkið, sem ætti að vera fyrirmynd, skuli láta dragast í 4 ár að leggja ríkisreikninginn fyrir Alþingi. — Ég vil benda á, að 16. febr. 1945 var samþ. þáltill. um þetta efni á þá leið, að reikningunum yrði hraðað. Eftir þessu hefðu ekki verið farið, hvorki af fyrrv. ríkisstj. né þeirri, sem nú situr. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, að þessu verði kippt í lag, og vil því, um leið og ég vænti svara við þessari fyrirspurn, beina þeirri áskorun til stj., að hún láti lagfæra þetta. Skv. áðurnefndri þál. ætti að leggja reikninginn 1947 fyrir næsta Alþingi, en til þess þyrfti að kjósa nú endurskoðendur fyrir það ár, og það vil ég leyfa mér að leggja til, að verði gert, svo að hægt verði að leggja alla þá reikninga, sem ekki hafa verið samþ., fyrir næsta þing.