25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3870)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka fjmrh. fyrir svör hans við fyrirspurnum mínum. Af þeim upplýsingum, sem hann hefur gefið, er ljóst, í hvert óefni er komið, sem sagt, reikningurinn 1944 er enn ekki tilbúinn eftir 4 ár. Dráttur þessi stafar af því, eftir upplýsingum ráðh., að ýmsar stofnanir hafa látið standa á sér með nauðsynlegar upplýsingar. En er ekki óhætt að gera ráð fyrir, að það sé erfiðara með að afla upplýsinganna, eftir því sem fleiri ár líða frá því að hlutirnir gerðust? Þá kom það fram, að reikningurinn fyrir árið 1945 væri prentaður, en að endurskoðun væri ekki lokið, og loks, að ekki væri hafin endurskoðun reikningsins 1946, því að endurskoðendurnir fyrir það ár hefðu nýlega verið kosnir. Það er fráleitt. að endurskoðunin skuli þurfa að bíða, þar til, reikningarnir eru prentaðir, ef á því þarf að standa svo mjög eins og undanfarið, og fyndist mér til athugunar, hvort ekki mætti endurskoða þá fjölritaða. Mér þótti gott að heyra undirtektir ráðh. varðandi það að kjósa endurskoðendur nú fyrir 1947, og vænti ég, að úr því geti orðið, svo að allir hinir ósamþykktu reikningar geti legið fyrir næsta þingi.