25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (3873)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Ingólfur Jónsson:

Vegna þess, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um tafir í sambandi við húsnæðiseklu, vil ég benda á það, að áður hefur þetta ekki verið betra. Árið 1945 flutti ég og hv. þm. N-Ísf. till. um að koma þessu í betra horf. Till. var flutt vegna þess, að árið 1945 var lagður fram ríkisreikningurinn fyrir 1941, fjórum árum á eftir tímanum. Eldri þm. hafa sagt mér, að þetta sé löng saga og að það hafi tíðkazt í 10–15 ár, að ríkisreikningarnir hafi ekki verið lagðir fyrir fyrr en 3–4 árum eftir að þeir hefðu átt að koma fram.

Það er merkilegt, að í hvert sinn, er spurt er um þetta í þinginu, koma fram afsakanir fyrir þessu sleifarlagi. Ég hélt, að þegar till. okkar, sem ég vitnaði í, var samþ., þá mundi það hafa áhrif og þessu yrði kippt í lag, en árangurinn hefur enginn orðið. Húsnæðisleysi er engin afsökun. Hitt er ekki undarlegt, þótt illa gangi að fá svör við fyrirspurnum, þegar verkið er unnið 3–4 árum á eftir, kannske búið að skipta um fólk og leita verður í blöðum, sem fyrir löngu hafa verið lögð til hliðar. Ég er hissa á því, að endurskoðendunum skuli detta í hug að reyna að afsaka þetta. Ég er hissa á því, að þeir skuli ekki heldur krefjast þess, að þessu verði kippt í lag og þeim veitt nauðsynleg aðstoð til þess.

Svo ætla ég ekki að segja meira um þetta. Ég vil bara skora á þá, sem með þetta hafa að gera, að kippa því í lag. Það er leitt, að þeir, sem eiga að vinna verkið, skuli reyna að afsaka þetta sleifarlag.