25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ef hv. 2. þm. Rang. hefði ekki verið hér áðan, er ég sagði þessi fáu orð, þá væru þau ummæli hans skiljanleg, að verið væri að afsaka þann drátt, sem orðið hefur á því, að reikningarnir væru lagðir fram. En hvernig getur hann haldið því fram, að ég sé að afsaka þetta og bera í bætifláka, þegar ég fyrir þremur mínútum síðan lét í ljós þá skoðun fyrir hönd allra yfirskoðunarmannanna, að þetta væri ergilegt og þyrfti að bæta úr því?

Eitt af því, sem torveldað hefur störfin, er það, að við höfum þurft að bíða mánuðum saman eftir húsnæði. Ég veit ekki, hvort ætlazt er til þess, að við hefðum átt að taka hús á mönnum með lögregluvaldi. — Við höfum kvartað við hæstv. ríkisstj., og fer ég ekki að skýra nánar frá því hér, en við höfum gert það engu að síður, þótt það væri gert á kurteisan hátt og verði ekki básúnað hér. Það getur hafa verið gert í fullri alvöru fyrir því.

Það hefur verið rekið eftir í þessum efnum og reynt að flýta verkinu eins og unnt hefur verið, einmitt vegna þess, að yfirskoðunarmennirnir hafa skilið, hve óþægilegt það er, að reikningarnir komi seint fram.

Ég hef aðeins viljað gefa upplýsingar um þetta hér og skýra frá erfiðleikum yfirskoðunarmannanna.