18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (3878)

156. mál, þjóðleikhúsið

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Út af þessari fsp. hef ég skrifað þjóðleikhúsn. og beðið hana um skýrslu og fékk hana í morgun. Er þar vísað í svör frá skrifstofu húsameistara, og geri ég því ráð fyrir, að n. geri svör húsameistara að sínum. Um þetta efni segir húsameistari svo:

„Með þeim takmörkunum, sem nú eru á efnisöflun erlendis frá, get ég ekki sagt um, hvenær húsið geti orðið fullgert, mætti þó gizka á um næstu áramót “

Auk þess vil ég láta falla þau orð til viðbótar, að skömmu eftir að ég tók við því starfi, sem ég gegni nú, kallaði ég til mín þjóðleikhúsn. og húsameistara til að fá að vita, hvernig væri ástatt með þjóðleikhúsið og efnisöflun til þess. Kom þá í 1jós, að byggingin hefur ekki enn þá fengið, svo að teljandi sé, neinn gjaldeyri til efniskaupa erlendis frá, sem á þarf að halda til að ljúka byggingunni og útbúnaði hússins. Ég lagði áherzlu á að fá yfirlit um, hversu mikinn gjaldeyri þyrfti til að ljúka húsinu. Fékk ég þær upplýsingar, að það mundi vera um 2 millj. kr., aðallega vegna innréttingar hússins og útbúnaðar á leiksviði. N. upplýsti, að hún hefði sótt um í þessu skyni 1900 þús. kr. á árinu 1946. en síðar hefði hún með ráði sænsks ráðunautar, sem hún hefur haft, lækkað það niður í 500 þús. sænskar kr. til byggingarinnar, og hefði hann talið, að það mundi nægja. N. hafði í höndum bréflegt loforð frá viðskiptaráði, að gefið skyldi verða leyfi, þegar á þyrfti að halda, fyrir 600 þús. ísl. kr. Aðra úrlausn hefur hún ekki fengið í gjaldeyrismálum. Ég lagði strax áherzlu á, að málið yrði tekið upp á ný og leitað eftir því við gjaldeyrisyfirvöldin að fá yfirfærslu tryggða. En það var ljóst, að þar var við ramman reip að draga, þar sem búið var að ráðstafa öllum gjaldeyri og miklir yfirfærsluörðugleikar, enda hefur reynslan sýnt, að þótt mikið hafi verið unnið að því, þá hafa ekki fengizt yfirfærslur, svo að hægt sé að gera samninga viðvíkjandi innréttingu og ljósatækjum. Gjaldeyrisn. hafði veitt leyfi í sambandi við samning við sænskt firma, en yfirfærsla fékkst samt ekki, svo að sá samningur kom ekki að haldi. Ég vil rétt um leið undirstrika, að á sama tíma sem þjóðleikhúsið fær engan gjaldeyri til að koma sínum málum áfram á tímum, þegar nógur gjaldeyrir var til, virtist enginn hörgull á, að einstaklingar gætu fengið gjaldeyrisyfirfærslur til að ljúka bíóbyggingu og öðrum byggingum. Af einhverjum furðulegum ástæðum fór það svo, að öllum gjaldeyrisinnistæðum landsmanna var ráðstafað, án þess að þjóðleikhúsið kæmi þar til greina.

Nú vildu þjóðleikhúsn. og ráðuneytið ekki láta við svo búið standa. Vildu báðir koma þessu máli áfram, þó að svona stæði á. Voru athugaðir möguleikar á því að gera samninga þannig, að gjaldfrestur fengist á upphæð þess samnings, sem gera átti í Svíþjóð á efni til innréttingar. Hafa þessar samningaumleitanir staðið yfir nú um hríð, en ekki borið árangur ennþá. Eins og menn sjá á því síðara fjárlagafrv., sem fram hefur verið lagt, þá er þar lagt til, að stjórnin fái heimild til að ábyrgjast lán í þessu skyni, til þess að hægt sé að fá bæði innréttingu og annan útbúnað, sem þarf í húsið, og er ráðgert að kaupa ljósatækin í einhverju landi, þar sem hægt væri að koma við vöruskiptum.

Eftir að hafa heyrt þessar upplýsingar geta menn skilið, að ekki er óeðlilegt, að það standi í bréfi húsameistara, að erfitt sé að segja um, hvenær húsið verði fullgert. Um það verður ekkert fullyrt, það fer eftir því, hvernig rætist úr gjaldeyrismálunum. Mér skilst á þeim, sem eru kunnugir þessum málum, að ef hægt væri að ganga frá samningum nú strax og fá gjaldeyrisleyfi, þá væri von til, að hægt væri að taka húsið til notkunar um næstu áramót, en það er áreiðanlega allra fyrsti tími, sem kemur til mála, eins og þessi mál horfa nú við, og sjálfsagt ekki skynsamlegt að reikna með, að það geti orðið, hversu mikil áherzla sem lögð er á málið. Þetta læt ég duga um það atriði.

Þá er síðari spurningin, hve miklu fé hafi verið varið til þjóðleikhússins og hvað sé áætlað, að það muni kosta fullgert, og óskað nákvæmrar, sundurliðaðrar skýrslu um allar greiðslur úr þjóðleikhússjóði frá upphafi og sérstaklega tilgreint, hve miklu fé hefur verið varið til byggingarinnar, frá því að vinna við hana var hafin að nýju eftir hernámið.

Um þetta hef ég eftirfarandi upplýsingar: Byggingarkostnaður til áramóta 1947 var 5806488 kr., en seinna tímabilið var byggingarkostnaður sem hér segir:

1944 740 þús. kr.

1945–1948 4331 þús. kr.

Kostnaðurinn síðara tímabilið er þá m. ö. o.

samtals 5071 þús. kr.

Kostnaður við þjóðleikhúsið frá upphafi sundurliðast þannig á ár:

1929

8458,38

kr.

1930

119594,41

1931

273427,28

1932

204085,67

1933

79145,08

1934

21533,60

1935

4036,63

1936

4517,88

193?

683,12

1938

1587,12

1939

3414,78

1940

2417,31

1941

8597,50

1942

3346,73

1943

1944

740088,36

1945

1142863,28

1946

1585207,56

1947

1803393,96

-

5806486,64

kr.

Þá er spurt um, hvað sé áætlað, að húsið muni kosta fullgert. Það stendur í bréfinu, að áætlaður kostnaður á útlendu efni og vinnu frá 1/1 1948 til lokasmíðis sé 3200 þús. kr., en að fullgera húsið sé áætlað 4800 þús. kr.

Ég skal geta þess, að þjóðleikhússjóður mun nú eiga í handbæru fé 1750000 kr. og eiga eftir að fá allan skemmtanaskattinn fyrir 1947, sem menn ímynda sér, að muni nema öðru eins, svo að það verður þá samtals 3½ millj. kr. Á árinu 1948 má gera ráð fyrir tekjum af rekstri á húsinu, þannig að þetta fé verði samtals nokkuð á 5. millj. kr., eða ekki alveg eins mikið og áætlunin hljóðar um.

Ég þykist vita, að hv. þm. þyki eitt skorta á um svör við fyrirspurnunum, en það er sundurliðun á öllum kostnaði, en um það spurði hann m. a. Þessi spurning er þannig vaxin, að erfitt er að gera sér grein fyrir, hvernig fyrirspyrjandi hugsar sér hana. Það er augljóst, að ekki er hægt að leggja fram skýrslu um hverja einstaka greiðslu öll þessi ár, því að þær skipta árlega mörgum þúsundum og sennilega tugum þúsunda. Ráðuneytið hefur óskað eftir gögnum, sem hægt væri að nota sem svör við fyrirspurninni, en annað en það, sem ég hef greint, hefur ráðuneytið ekki fengið. Ráðuneytið hefur óskað eftir því við n. að fá byggingarkostnaðinn sundurliðaðan hæfilega mikið, eins og venjulegt er, þegar grg. eru gerðar um slíka hluti, en hún er ekki komin, en það er sjálfsagt, að hv. þingmaður og aðrir þm. fái aðgang að henni, en ef það er eitthvað sérstakt, sem hv. þm. óskar eftir með þessari fsp., þá vil ég leyfa mér að óska þess, að hann orði fyrirspurnina þannig, að hægt sé að átta sig á, hvað hann vill einkum fá að vita og hvernig hann vill fá, byggingarkostnaðinn sundurliðaðan.